Knattspyrnulið Breiðabliks tekur í kvöld á móti skoska liðinu Motherwell í fyrsta heimaleik félagsins í Evrópuleik í karlaflokki. Morgunblaðið ræddi við Ólaf Kristjánsson, þjálfara liðsins, um möguleikana á því að komast í næstu umferð en Motherwell vann fyrri leik liðanna 1:0. „Þeir eru auðvitað með yfirhöndina með því að vera 1:0 yfir. Möguleikar okkar liggja í því að halda þeim frá því að skora. Nái þeir að skora þurfum við að skora þrjú til að komast áfram. Við þurfum því að spila þéttan og góðan varnarleik. Við vitum að við höfum fengið marktækifæri í öllum leikjum sumarsins. Nýtt þau misvel og í leiknum úti fengum við góð færi en nýttum þau ekki. Við þurfum að skerpa okkur í sóknarleiknum og spila svipaðan varnarleik,“ sagði Ólafur og segir reynslulitla leikmenn Breiðabliks hafa höndlað álagið vel í fyrri leiknum.
„Þessir strákar eru að ná því út úr sinni getu sem þeir hafa náð, út af því að þeir eru einnig góðir í að stjórna álaginu. Ég get ekki sagt um hvernig eldri leikmenn hefðu staðið sig í þessum sporum en þessir leikmenn höndluðu álagið mjög vel í fyrri leiknum. Skotarnir settu okkur undir gríðarlega pressu fyrstu 10-15 mínúturnar og dældu boltanum inn á vítateiginn hjá okkur. Strákarnir höndluðu það ágætlega. Við erum búnir að fá þennan smjörþef og ég á því ekki von á neinu óvæntu á morgun (í dag),“ benti Ólafur á og var beðinn um að bera saman styrkleika Motherwell og íslenskra liða.
„Miðað við leikinn sem við spiluðum úti er þetta klárlega besta lið sem við höfum spilað við í ár. Ekki þar með sagt að liðin hér heima séu ekki frambærileg heldur er þetta lið allt öðruvísi. Þeir eru allir líkamlega sterkir og mjög góðir í að senda boltann og að taka á móti honum. Það eru engar krúsídúllur í því sem þeir gera og þeir eru með beinskeyttan leikstíl. Þeir eru ekkert fyrir það að reyna að halda boltanum innan liðsins í langan tíma. Það er farin stysta leið að markinu. Þeir eru kannski líkir því sem KR var í fyrra þegar þeir voru upp á sitt besta. Líkamlega sterkir og beinskeyttir.“ kris@mbl.is