„Það hefur ekki mikið verið talað um hagsmuni rækjuvinnslna. Þetta þýðir væntanlega meiri veiði og öll rækja sem er veidd við Ísland kemur náttúrlega til vinnslu á Íslandi, það er nokkuð öruggt. Það þýddi meiri starfsemi bæði til sjós og lands,“ segir Þröstur Friðfinnsson, framkvæmdastjóri rækjuvinnslunnar Dögunar ehf. á Sauðárkróki, um þá ákvörðun sjávarútvegsráðherra að afnema aflamark í veiðum á úthafsrækju.
Stuðningsyfirlýsing við ákvörðun sjávarútvegsráðherra var send fjölmiðlum í gær undirrituð af tuttugu starfsmönnum Dögunar ehf. á Sauðárkróki. Þröstur segir að tilgangurinn með yfirlýsingunni hafi verið sá að vekja athygli á hagsmunum rækjuvinnslna í umræðunni sem hann segir að hafi verið nokkuð einhliða. Hann segir að undanfarin ár hafi Dögun orðið að reiða sig á innflutt hráefni þar sem útgefinn rækjukvóti hafi ekki verið veiddur vegna lágs afurðaverðs. „Þannig að ef þetta stuðlar að aukinni veiði þá skilar það sér bara í auknum tekjum fyrir fyrirtækin, fólkið og þjóðarbúið í heild,“ segir Þröstur.
Þá hefur Þjóðareign, samtök um auðlindir í almannaþágu, sent frá sér yfirlýsingu þar sem ákvörðun sjávarútvegsráðherra er fagnað. Skorað er á ráðherra að hvika hvergi frá henni .
» Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að heimila óheftar veiðar á úthafsrækju.
» Ákvörðunin hefur verið mjög umdeild og m.a. verið harðlega gagnrýnd fyrir að gera verðmæti rækjukvóta sem fyrir eru að engu.