Það var þarft verk að hrinda af stað söfnun sem gerði Íslendingum kleift að sýna sameiginlegt þakklæti sitt í verki og um leið að losa Ómar við þá skuldabagga og áhyggjur sem oftast fylgja hugsjónavinnu og frumkvöðulsstarfi. Starfi sem oft er misskilið og ekki metið að verðleikum fyrr en að áratugum liðnum.
Ómar hefur í tugi ára sýnt okkur landið okkar og útskýrt gang náttúrunnar eins og honum einum er lagið. Ég veit að allir sem aflögufærir eru munu leggja sitt af mörkum til að létta af honum böggum sem sligað geta einn mann en eru mörgum höndum léttir. Þar með tryggjum við frágang verka Ómars eins og hann hefði viljað skilja við þau og hjálpum honum og konu hans að eiga notalegt ævikvöld í faðmi þeirrar stóru fjölskyldu sem þau hafa komið á legg. Minna eiga þau ekki skilið.
Um leið og ég minni á bankareikning söfnunarinnar: 0130 26 160940 4929 skora ég á þær bankastofnanir sem Ómar skiptir við að leggja sitt af mörkum með því t.d. að fella niður vexti, innheimtugjöld og annan kostnað sem ótrúlega fljótt leggst á skuldir í þessum stofnunum.
Ómar, sérstakar þakkir frá okkur öllum fyrir að hjálpa okkur að kynnast landinu okkar og elska það – þetta einstaka land – Ísland.
BALDUR ÁGÚSTSSON,
fv. forstjóri og frambjóðandi
í forsetakosningum 2004.
Frá Baldri Ágústssyni