Örn Arnarson
ornarnar@mbl.is
Bankar í Portúgal, Írlandi, Grikklandi og á Spáni hafa aldrei verið jafn háðir fjármögnun Evrópska seðlabankans. Samkvæmt upplýsingum seðlabankans hafa bankar frá þessum löndum aldrei þurft að reiða sig á fyrirgreiðslu hans í jafn ríkum mæli og í síðasta mánuði. Þessar upplýsingar koma fram á sama tíma og evrópsk fjármálayfirvöld búa sig undir að opinbera álagspróf, sem 91 af helstu fjármálafyrirtækjum Evrópu þreyttu á dögunum. Álagsprófinu er ætlað að sýna fram á styrk evrópska bankakerfisins þrátt fyrir mikinn skuldavanda ákveðinna evruríkja og niðursveiflu efnahagslífi aðildarríkja Evrópusambandsins.
Tölur Evrópska seðlabankans um miklar lánveitingar til banka í ofangreindum löndum sýna að verulega hefur þrengst að aðgengi þeirra að hefðbundnum fjármálamörkuðum. Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir Lenu Komileva, sérfræðingi hjá fjármálafyrirtækinu Tullett Prebon, að þetta sýni í raun að viðkomandi bankar hafi fallið á því álagsprófi sem markaðirnir hafa lagt fyrir þá.
Seðlabanki brúar bil í kjölfar fjármagnsflótta
Nýjar tölur Alþjóðagreiðslubankans virðast styðja þessa ályktun. Fram kemur í umfjöllun Dow Jones að þær sýni að fjárfestar hafi dregið úr lánveitingum til Grikklands, Írlands, Portúgals og Spánar um 110 milljarða evra á fyrsta fjórðungi þessa árs. Auk þess drógu þeir úr lánveitingum til ítalska hagkerfisins um 81 milljarð.Leiða má líkur að því að þessi fjármagnsflótti hafi leitt til þess að bankar í viðkomandi ríkjum hafi þurft að reiða sig á fyrirgreiðslu Evrópska seðlabankans til þess að brúa bilið sem myndast hefur.
Samkvæmt Dow Jones lánaði Evrópski seðlabankinn 126 milljarða evra til ríkjanna fjögurra á fyrsta fjórðungi ársins. Aukning lánveitinga bankans miðað við sama tímabil í fyrra nam 141 milljarði evra, þannig að lunginn af aukningunni rann til þessara landa. Í júnílok höfðu 44% af 870 milljarða lánafyrirgreiðslu seðlabankans runnið til banka í þessum fjórum ríkjum.