[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þó að karlmenn séu í meirihluta á ráðstefnunni þá eru þar líka kvenmenn. Því er ekki í lagi fyrir karlmenn að nota kvennaklósettið!

AF RÁÐSTEFNUM

Matthías Árni Ingimarsson

matthiasarni@mbl.is

Í dag hefst Comic Con-ráðstefna sem stendur yfir í fjóra daga í San Diego-borg í Kaliforníu. Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 1970 og verður því mikið um dýrðir á fertugsafmæli ráðstefnunnar um helgina. Tugir þúsunda myndasöguaðdáenda sækja ráðstefnuna á hverju ári og fer þeim sífellt fjölgandi. Í fyrra mættu hátt í 130 þúsund manns (sbr. 125 þúsund árið 2008 þegar blaðamaður sótti ráðstefnuna) og kynntu sér það allra nýjasta í myndasögum, borðspilum, tölvuleikjum og leikföngum. Þessir máttarstólpar ráðstefnunnar eiga þó undir högg að sækja því æ algengara er að stóru kvikmyndaverin kynni bíómyndir og sjónvarpsþætti á ráðstefnunni.

Þegar Comic Con var sett á laggirnar fyrir fjörutíu árum komst fátt annað að en hefðbundnar mynda- og teiknimyndasögur á meðal gesta ráðstefnunnar. Á því hefur þó orðið nokkur breyting og á undanförnum árum hefur nánast allt sem tengist myndasöguheiminum með einhverjum hætti svo bæst við og oft verður að segjast að tengingin er frekar í þynnri kantinum. Blaðamaður veit t.d. ekki alveg hvað pallborðsumræður með leikurunum úr Lost-þáttunum og It's Always Sunny in Philadelphia hafa með teiknimyndasögur að gera. Það stoppaði ekki mörg þúsund æsta aðdáendur þáttanna að mæta á slíkar fyrir tveimur árum. Hvað þá True Blood- orkudrykkurinn sem HBO-sjónvarpsstöðin reyndi að pranga upp á gesti ráðstefnunnar til að kynna samnefndan sjónvarpsþátt. Verstir af öllu voru þó gaurarnir sem kynntu kvikmyndina Hamlet 2, en þá kvikmynd er varla hægt að tengja myndasögum með nokkrum hætti.

Viðvera Hollywood á ráðstefnunni er þó ekki alslæm. Handritshöfundar kvikmyndanna Superbad og Green Hornet, þeir Seth Rogen og Evan Goldberg, hafa verið duglegir að sækja Comic Con undanfarin ár og í ár verður engin undantekning á því. Nýverið fékk dagblaðið LA-Times þá til að miðla af reynslu sinni og upplýsa lesendur um hvernig megi komast óskaddaður í gegnum helgina í San Diego. Þessi fimm atriði er því mjög gott að hafa í huga og hreinlega nauðsynlegt að fara eftir ef komast á í gegnum helgina í Mekka nördanna.

1. Settu alltaf á þig meiri svitalyktaeyði en þú telur þig þurfa.

2. Þó að karlmenn séu í meirihluta á ráðstefnunni þá eru þar líka kvenmenn. Því er ekki í lagi fyrir karlmenn að nota kvennaklósettið!

3. Gott er að passa sig á mönnum sem líta út fyrir að vera of miklir töffarar, borgin er nefnilega full af þeim.

4. Í ár verður líklegast eitthvað um teiknimyndasögur og ef þú getur fundið þær inná milli kynningarbása kvikmynda er það vel þess virði að stoppa og skoða þær.

5. Undir engum kringumstæðum skaltu taka sverðið þitt úr slíðrinu. Fólk gæti litið á það sem stríðsyfirlýsingu.

Ofurhetjur hafa heldur betur sett svip sinn á kvikmyndir á undanförnum árum og með sama móti er Hollywood-skrímslið mætt á Comic Con. Á hverju ári eru þar kynntar til sögunnar nokkrar kvikmyndir sem byggðar eru á teiknimyndum eða grafískum skáldsögum auk þess að framleiðendur hinna ýmsu sjónvarpsþátta mæta með nýju þættina sína. Svo virðist sem þessir tveir heimar séu orðnir það samofnir að hreinlega þarfnist hvor annars til að halda sér á floti. Eitt er víst að Hollywood er komið til að vera á Comic Con og litlar líkur eru á að það breytist á næstu árum.