„Mér var sagt í vor að ég fengi nýjan samning en því var frestað á meðan beðið var eftir að nýir eigendur kæmu inn í félagið. Núna eru komnir nýir eigendur en þeir ætla að skera mikið niður og það stefnir allt í að ég verði ekki hér áfram eftir leiktíðina,“ sagði Árni Gautur Arason, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu og leikmaður Odd Grenland í norsku úrvalsdeildinni, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Samningur Árna Gauts við félagið rennur út í haust og bendir allt til þess að André Hansen, fyrrverandi KR-ingur, og Andreas Lie muni sjá um að verja mark Odd á næstu leiktíð eins og Morgunblaðið hefur áður greint frá. Óvíst er hins vegar hvað tekur við hjá Árna.
„Það er frekar stutt síðan þetta kom í ljós og ég þarf að skoða vel hvaða möguleikar eru í stöðunni. Konan mín er að hefja kandidatsár í læknisnámi hérna og er því bundin því að vera hér í eitt ár til viðbótar að minnsta kosti. Þess vegna verður þetta smá „púsluspil“ og ég þarf að finna félag hér nálægt,“ sagði Árni en þar koma nokkur félög til greina. Sandefjord verður líklega nálægasta úrvalsdeildarfélagið í um 40 kílómetra akstursfjarlægð.
En kemur til greina hjá þessum 35 ára gamla fyrrverandi markverði ÍA og Stjörnunnar að snúa heim áður en ferlinum lýkur?
„Við höldum öllu opnu og útilokum ekkert. Það er alltaf stefnan að flytja heim einhvern tímann,“ sagði Árni sem hefur leikið með Odd frá árinu 2008 en var áður hjá Rosenborg og Vålerenga í Noregi, Manchester City á Englandi og Thanda Royal Zulu í Suður-Afríku.
sindris@mbl.is