Það mun vera mikið áfall fyrir suma að frétta, (frá BBC), að erfðafræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu, að erfðaefni frá Neanderthalsmönnum sé að finna í fólki almennt utan Afríku. En Neanderthalsmenn hafa einmitt verið taldir háðulegasta dæmið um þá manntegund sem við vildum síst líkjast; og dæmi um þá undirmanneskju sem helst undirstrikar yfirburði nútímamannsins. (Sjá t.d. umfjöllun mína um nasista í kvæðabálki mínum Hitlers sennu og heimsstyrjalda, sem er að finna í sjöttu ljóðabók minni af tólf; Ástarljóðum og stríðssögum (2002)). En mannfræðingar sem aðrir hafa verið iðnir við að draga bæði gáfnafar og talhæfileika Neanderthalsmannsins mjög í efa. Þó hafa verið að koma fram erfðagögn á síðustu árum, um að hann hafi verið líkari okkur en áður var haldið: Rauðhærður, ljóseygður, að vísu dekkri á hörund, en jafnvel með andlitsfarða og skartgripi; og því með vott af fegurðarskyni og ímyndunarafli. Maður gat því búist við, að brátt stefndi í yfirlýsingu um að hann verðskuldaði ekki lengur þann heiður að teljast óferjanlegasti fyrirrennari nútímamannsins.
En nú hefur það sem sagt gerst: Svo virðist sem þegar nútímamaðurinn hafi komið norður úr Afríku fyrir um sextíu þúsund árum, hafi hann ekki bara rutt þessu treggáfaða vöðvatrölli Evrasíu á undan sér, heldur hafi hann þvert á móti sótt til hans í makaleit. Þannig virðist það, að þessi forna deilitegund mannsins, Homo sapiens neanderthalensis, hafi hjálpað til við að skapa þá deilitegund sem við nú kennum okkur öll við; Homo sapiens sapiens. Við missi þessa blórabögguls missum við líka frægasta fulltrúa þeirra manntegunda sem fóru rétt á undan okkur. Okkur er ekki lengur stætt á því að stæra okkur af því að Evrópubúar, eða Asíubúar, séu af göfugri kynstofnum en Afríkubúar eða Ameríkubúar. Bollaleggingar um að heilalögun Neanderthalsmannsins hafi ekki verið hagstæð, (lítill framhluti) þótt heilinn væri óvenju stór, virðast mér nú orðnar grunsamlegar. Sömuleiðis að málheltin hafi háð honum (við framburð samhljóða), eða þá skortur á fegurðarskyni. Alla vega virðist slíkt innskot ekki hafa orðið mannkyninu til trafala við að verða það sem það nú óneitanlega er. Líklegt er að eftir eigi að koma í ljós að hann var bara einn af mörgum fjölbreytilegum mannkynsafbrigðum sem blönduðust saman á þessu tímabili. Því virðist nú enn ólíklegra en áður, að ætla að sumir nútímamenn séu apalegri eða hellisbúalegri en aðrir. Jafnvel þótt undirritaður teljist til upplýstra og víðsýnna mannfræðimenntaðra manna, er mér samt mjög brugðið. Það blundar nefnilega í mér, að best fari á að Ísland sé sem líkast því sem það var þegar ég var að alast upp, og að við eigum að hafa sem fæsta innflytjendur, og að ganga ekki í erlend fjölþjóðabandalög eins og Evrópusambandið. Þetta hef ég á tilfinningunni, þó að skynsemin segi mér kannski að svo þurfi ekki endilega að vera. Það er t.d. ljóst, að með aukinni tækni og tækifærum, og nýjum innflytjendaþjóðum, þvælast hefðbundnu Íslendingarnir sífellt minna hver fyrir öðrum. Mest særir það mig þó að hugsa til þess, að jafnvel okkar vestræni bókmenntaarfur skuli að hluta til vera byggður á arfinum frá þessum þursalegu forfeðrum okkar frá síðustu ísöldinni!
Höfundur er þjóðfélagsfræðingur og skáld.