Það ber kannski fyrst að taka það fram að ég kannaðist ekki við hljómsveitina Thee Oh Sees áður en ég hlustaði á nýjustu afurð þeirra Warm Slime en ekki fannst mér nafnið vera lukkulegt.

Það ber kannski fyrst að taka það fram að ég kannaðist ekki við hljómsveitina Thee Oh Sees áður en ég hlustaði á nýjustu afurð þeirra Warm Slime en ekki fannst mér nafnið vera lukkulegt. En hljómsveitin, sem mér skilst að sé með eindæmum afkastamikil og hafi gefið út um 6 diska á síðustu 3 árum, kemur bara skemmtilega á óvart. Tónlistin á Warm Slime er gammeldags rokk, dálítið „psychedelískt“ og pönkað. Fyrsta lagið á plötunni er reyndar alveg hryllilega leiðinlegt að hlusta á, enda um að ræða 13 mínútna endurtekningu á sama textabrotinu sem er sungið við einhæft bassaplokk. En þetta batnar allt strax í næsta lagi og platan rennur fínt í gegn. Helsti gallinn er sá að ekkert eitt lag stendur upp úr og platan verður einhæf fyrir vikið og því miður ekkert sérstaklega eftirminnileg. Þetta er svona miðlungsplata, fín hlustun en ekkert sem maður myndi endilega muna eftir að skella á fóninn. En fyrir þá sem vilja smá-nostalgíufíling í rokkinu sínu þá er Heita slímið alveg þess virði að athuga.

Hólmfríður Gísladóttir

Höf.: Hólmfríður Gísladóttir