Útitónleikar í Borgarvirki eru fastur liður í unglistahátíðinni Eldur í Húnaþingi sem hafin er í Húnaþingi vestra. Eldur er bæjarhátíðin á Hvammstanga.

Útitónleikar í Borgarvirki eru fastur liður í unglistahátíðinni Eldur í Húnaþingi sem hafin er í Húnaþingi vestra. Eldur er bæjarhátíðin á Hvammstanga.

„Hátíðin er skipulögð af sjálfboðaliðum, yfirleitt nýju fólki í hvert skipti og þá í yngri kantinum þótt ég flokkist kannski ekki þar undir,“ segir Helga Hinriksdóttir, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar í ár. „Ef enginn gefur sig í þetta verður ekkert gert. Fólk vill ekki að þetta falli niður,“ segir Helga þegar hún er spurð að því hvers vegna fólk sé tilbúið að leggja á sig mikla sjálfboðavinnu til að skipuleggja og vinna að framkvæmd á svona hátíð.

Hátíðin er rekin með styrkjum og með því móti reynt að hafa aðgang að sem flestum viðburðum án endurgjalds. Eldur hófst í gærkvöldi. Í kvöld verður árlegur liður, Melló Músíka, þar sem tónlistarfólk úr sýslunni kemur fram og síðan verður ball.

Regína Ósk syngur í Borgarvirki á föstudagskvöldið. Fólkið safnast saman í virkinu og á bak við söngkonuna verður hamraveggur upplýstur með kertaljósum. Fjöldi fólks hefur komið til að hlusta á tónlistarfólkið í Borgarvirki og upplifa stemninguna. Um kvöldið leikur hljómsveitin Dikta á dansleik í félagsheimilinu.

Fjölskyldudagurinn er haldinn á laugardeginum og tvö böll verða í félagsheimilinu um kvöldið, fyrst barnaball og síðan ball fyrir sextán ára og eldri. Hljómsveitin Í svörtum fötum leikur.

Heimsmeistaramót í kleppara

Á hátíðinni er einnig boðið upp á ýmis námskeið, listsýningar, útvarp, skemmtiatriði og tónlist. Helga nefnir töfrabragðanámskeið, mót í skotbolta og borðtennis, hundahlýðninámskeið og heimsmeistaramótið í kleppara. Helga tekur fram að heimsmeistaramótið sé auglýst sem minnst svo heimsmeistaratitillinn haldist í héraðinu.

helgi@mbl.is

  • Borgarvirki er upplagður tónleikastaður og þar verður safnast saman annað kvöld.