Persónulegur metnaður var aldrei helsta leiðarstjarna Benedikts Gröndal
Benedikt Gröndal var alþingismaður hátt á þriðja áratug og áður og jafnframt starfaði hann sem blaðamaður og ritstjóri. Hann var í framvarðasveit Alþýðuflokksins lengi og í 6 ár formaður þess flokks. Alþýðuflokkurinn var í formannstíð hans enn að jafna sig eftir langa stjórnarsetu og klofning flokksins. Benedikt var mannasættir og ólíkur ýmsum öðrum stjórnmálamönnum að því leyti að persónulegur metnaður varð aldrei hans helsta leiðarstjarna. Svo skipuðust mál að þótt Benedikt væri lengi framarlega í sínum flokki og hefði alla burði til ábyrgðarstarfa, þá gegndi hann ráðherrastarfi um tiltölulega skamma hríð og varð forsætisráðherra minnihlutastjórnar í nokkra mánuði í kringum áramótin 1979-1980 en þá geisaði býsnavetur í stjórnmálum með hatrömmum átökum. Benedikt Gröndal var ágætur maður, fróður og fjölmenntaður og góður viðkynningar. Hann yfirgaf stjórnmálin og fjölbreyttan starfsferil sáttur við guð og menn.