Í sviðsljósinu Bernd Ogrodnik og Hildur Magnea Jónsdóttir í leikhúsinu þar sem verkið Pétur og úlfurinn er sýnt.
Í sviðsljósinu Bernd Ogrodnik og Hildur Magnea Jónsdóttir í leikhúsinu þar sem verkið Pétur og úlfurinn er sýnt. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Það sem við erum að gera smellpassar hér inn í þetta fallega umhverfi.

Viðtal

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Það sem við erum að gera smellpassar hér inn í þetta fallega umhverfi. Við erum mikil náttúrubörn,“ segir Bernd Ogrodnik brúðugerðarmeistari sem ásamt konu sinni, Hildi Magneu Jónsdóttur, starfrækir Brúðuheima í gömlu verslunarhúsunum í Englendingavík í Borgarnesi.

Bernd vinnur leikbrúður sínar mest úr tré og segir að vel fari á því að vinna þær í gömlum timburhúsum sem séu mikilvæg fyrir sögu staðarins.

Bernd og Hildur voru búin að koma sér vel fyrir með starfsemina í Skíðadal í Svarfaðardal. Bernd var raunar mikið að vinna í Þjóðleikhúsinu og við ýmis verkefni víðar á höfuðborgarsvæðinu og raunar um allan heim þar sem hann hefur unnið við kvikmyndir, sjónvarp, kennslu og farið á leikbrúðuhátíðir og sýningar. „Það er mikið mál að fara á milli og ég hef verið á sífelldu flakki. Það mun minnka álagið á mér að geta unnið héðan,“ segir Bernd.

Hildur rekur vefinn Heilsubankann og fær tækifæri til að koma hugmyndum sínum sjálf í framkvæmd með kaffihúsinu sem er miðjan í starfsemi Brúðuheima. „Þessi starfsemi er byggð í kringum það sem fyrirtæki okkar, Fígúra, hefur gert síðastliðin tuttugu og fimm ár. Því til viðbótar kemur síðan kaffihúsið og tengir þetta allt saman,“ segir hann.

120 ára verslunarhús

Húsin sem enn standa í Englendingavík eru flest frá því um 1886 er Akra-Jón, kaupmaður í Borgarnesi, lét byggja upp verslunina, einhver hluti þeirra er þó eldri. Hann byggði verslunarhús og áfast íbúðarhús ásamt tveimur pakkhúsum. Kaupfélag Borgfirðinga eignaðist síðar húsin og voru þau meðal annars notuð sem geymslur í áratugi.

Hollvinasamtök Englendingavíkur björguðu húsunum og unnu að endurgerð þeirra í samvinnu við sveitarfélagið. Sett var upp sýning í hluta húsanna en framtíðarhlutverk vantaði. Sigríður Margrét og Kjartan í Landnámssetri Íslands vöktu athygli Bernds og Hildar á húsunum og var hugmyndum þeirra tekið fagnandi. Eftir nokkrar umræður varð það niðurstaðan að þau keyptu húsin og kláruðu uppbygginguna.

„Búið var að bjarga húsunum og lagfæra þau að hluta en við þurftum að gera mikið til viðbótar. Vel hefur verið tekið á móti okkur hér, bæjarbúar og ekki síst nágrannar okkar, og svo hefur starfsfólkið lagt sig fram um að veita góða þjónustu. Þetta sýnir hvað staðurinn er mikilvægur í huga Borgnesinga,“ segir Bernd.

Óhætt er að segja að starfsemin hafi fengið fljúgandi start. Hún hefur spurst vel út og fjöldi gesta sótt staðinn heim og notið þess sem þar er á boðstólum og náttúru víkurinnar að auki. „Það er alltaf gott veður hér,“ fullyrðir Bernd.

Gestir lifa sig inn í heiminn

„Það fylgir því mikil ábyrgð að vera með starfsemi á svona stað og mikilvægt að gera hlutina vel,“ segir Bernd og er ánægður með útkomuna og viðtökur gesta. Við uppsetningu leikbrúðusafnsins var lögð áhersla á að börnin og fjölskyldur þeirra gætu sjálf upplifað þennan heim. Ekki er allt lokað á bak við gler heldur gestum gefinn kostur á að snerta munina, þar sem það á við, og sjá hvernig þeir virka. Bernd læðist stundum um safnið til að fylgjast með hvernig þetta gengur og er glaður að sjá gestina lifa sig inn í brúðuheiminn. Hann er einnig ánægður með að geta sagt frá því að gestirnir hafi ekki brugðist því trausti sem hann sýnir þeim, nánast ekkert hafi skemmst þá tvo mánuði sem safnið hefur verið opið. „Það eru forréttindi að fá að upplifa þetta,“ segir hann, af innlifun. Hann segist fá miklar þakkir fyrir framtakið og gleði gestanna hvetji þau áfram.

„Það er eins og þessu sé stjórnað af aðalbrúðuleikhússtjóranum, þetta gekk svo hratt og vel fyrir sig,“ segir Bernd og bendir til himins.

Alþjóðleg leikbrúðuhátíð

Bernd og Hildur vinna áfram að þróun starfseminnar og ýmis verkefni eru í farvatninu. Bernd er oft með nema í leikbrúðugerð og heldur námskeið. Nú er unnið að því í samvinnu við háskóla í Bandaríkjunum og Finnlandi að koma á framhaldsnámi í leikbrúðugerð við Brúðuheima. Þá er ákveðið að hafa alþjóðlega leikbrúðuhátíð í mars.

LIST OG HANDVERK BERNDS OGRODNIKS FÆR VERÐUGA UMGJÖRÐ

Leikbrúðusafn, leikhús og kaffihús

Brúðuheimar í Borgarnesi eru lista- og menningarmiðstöð tengd brúðuleiklist.

Kaffihús Brúðuheima, mótttaka og gjafavöruverslun eru í gamla verslunarhúsinu. Þar er ævintýraland á barnalofti og lítið leikhús. Í versluninni eru seld leikföng, skrautgripir og brúður, allt handverk Bernds Ogrodnik.

Vinnustofa Bernds er í húsinu og fjölskyldan býr í íbúðarhúsi kaupmannsins.

Í pakkhúsunum er leikbrúðusafn þar sem ýmis verk Bernds eru til sýnis og leikhús þar sem leikbrúðusýningar eru um helgar. Byrjað var á einni sýningu á Pétri og úlfinum á sunnudögum en þar sem alltaf var uppselt á hana var annarri bætt við og nú er svo komið að uppselt er á báðar sýningarnar. Fleiri verk eru í undirbúningi. Þannig verður Gilitrutt frumflutt um miðjan október. Þá verða settar upp sýningar fyrir fullorðna. Aðstaða er til að taka við gestasýningum á neðri hæð leikhússins.