Nolan Leikstjórinn hefur gert hvert meistarastykkið á fætur öðru og Inception er nýjasta rósin í hnappagatið
Nolan Leikstjórinn hefur gert hvert meistarastykkið á fætur öðru og Inception er nýjasta rósin í hnappagatið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Christopher Nolan. Aðalleikarar: Leonardo DiCaprio, Joseph Gordon-Levitt, Ellen Page, Tom Hardy, Ken Watanabe, Dileep Rao, Cillian Murphy, Tom Berenger, Marion Cotillard, Pete Postlethwaite, Michael Caine, Lukas Haas. 150 mín. Bandaríkin. 2010.

Breski leikstjórinn Nolan kvaddi sér hljóðs með meistaraverkinu Memento (2000), og hefur verið að gera mestmegnis frábæra hluti síðan. Það er óhætt að slá því föstu að hann er einn frumlegasti og hugmyndaríkasti leikstjóri dagsins í gerð afþreyingarmynda, þar sem Insomnia er framarlega í flokki.

Í Inception er Nolan kominn aftur á forvitnilegar og framandi slóðir í vísindaskáldsögulegum framtíðartrylli með rómantísku ívafi. Þessi margflókna mynd er þeim kostum búin að hún hefur eitthvað til síns ágætis velflestum áhorfendahópum öðrum en þeim sem eiga erfitt með að einbeita sér að efninu sem krefst þess að menn hafi skilningarvitin jafnan í viðbragðsstöðu. Inception er bæði full af geysilega veigamiklum smáatriðum og sjálf sagan er margflókinn vísindaskáldskapur sem gerist í náinni framtíð þegar skilin eru óljós á milli svefns og vöku og aðalpersónan, Cobb (DiCaprio), er frægasti þjófur í veröld sem er orðin það háskaleg að glæpina fremur hann í svefni. Hann sækir leyndarmál í innstu afkima huga þeirra sem hann rænir og þar með er ekki nema fátt eitt talið. Hann sækist eftir að komast í annan draumaheim sem er utan þess draums sem okkur dreymir. Ef hann kemst í draumakjarnann, sem er þriðja draumavídd hugans, er hann orðinn meira en lítið hættulegur því þar er að finna öll leyndarmál þess sem sefur.

Þessi hæfileiki Cobbs gerir hann ómetanlegan í iðnaðarnjósnum, hann á því óteljandi hatursmenn sem vilja hann feigan svo að hann er á eilífum flótta jafnt í vöku sem draumheimum og þessi hæfni í gripdeildum hugans hefur kostað hann óbætanlegar, persónulegar fórnir sem tengjast fjölskyldu hans.

Inception fjallar um vandasamasta viðfangsefni á ferli Cobbs og launin eru í samræmi. Ef hann leysir það er honum lofað að fá að nýju fjölskyldu sína, eiginkonu og börnin tvö heil á húfi og sitt fyrra, venjulega líf. Til þess þarf hann að leysa verkefni sem er mótsögn við það sem hann hefur áður gert. Í stað þess að ræna huga á Cobb að koma fyrir ákveðnum þanka í heila manns, hugmynd sem mun breyta framvindunni.

Það sem er að gerast í Inception, er engu öðru líkt sem áður hefur sést á tjaldinu. Áhorfandinn upplifir óraunverulegan, marglaga draumaheiminn í ljósi nýrra framtíðarspádóma. Okkur hefur jafnan verið tjáð að mannshugurinn sé að miklu leyti óþekktur og órannsakanlegur, því er sögusviðið bæði ferskt og ótrúlega áhugavert. Hvort við erum einhverju nær um heilastarfsemina, þetta dularfulla meistaraverk, er aukaatriði. Inception er ekki heimildarmynd heldur frábær vísindaskáldskapur. Jules Verne ímyndaði sér veröldina sem hægt var að nálgast gegnum gígop Snæfellsjökuls, jafnt sem leyndardóma geimferða og tunglferða, og um það bil öld síðar varð ævintýrið að veruleika. Hver veit hversu Nolan verður kominn nálægt raunveruleikanum að öld liðinni í sinni heillandi en martraðarkenndu Inception. Fæst lifum við að fá svarið við því.

Það er engin ný bóla að menn leiki sér að draumheimum í kvikmyndum, einkum í ómerkilegum hryllingsmyndum á borð við Álmstrætiseðjuna. Hér getur að líta alvarlega og eftirtektarverða sýn í heim sem er svo órafjarri en býr þó í huga hvers manns. Inception er heillandi, frumleg, vel leikin af snilldarlega samsettum hópi gæðaleikara, með stærstu stjörnu samtímans, DiCaprio, í fínu formi í burðarhlutverkinu. Brelluvinnan er engu lík sem hefur áður sést (það er t.d. magnþrungið að sjá draumaborgirnar hrynja eins og spilaborgir), kvikmyndatakan og tónlistin augna- og eyrnayndi. Óskarstilnefningarnar blasa við úr hverju horni. Það er óstjórnlegur kraftur, hugmyndaflug, einfaldar lausnir, margflóknar gátur og mikil átök í gangi í fyrsta meistaraverki ársins. Það er líka á tæru að eitt áhorf nægir ekki til að komast yfir snúin leyndarmál Inception. Það sakar ekki, það er tilhlökkunarefni að sjá hana aftur og fylla upp í eyðurnar. saebjorn@heimsnet.is

Sæbjörn Valdimarsson

Höf.: Sæbjörn Valdimarsson