Halldór Armand Ásgeirsson
haa@mbl.is
Í sumar hefur lögregla fylgst sérstaklega með búnaði ferðavagna sem fólk dregur á eftir bílum sínum á vegunum. Fjöldi ökumanna hefur verið stöðvaður og að sögn lögreglu hefur búnaður þeirra í langflestum tilvikum verið í lagi.
Svonefnd pallhýsi hafa notið aukinna vinsælda hér á landi síðustu ár eins og flest önnur tæki sem auðvelda fólki lífið á ferðalögum úti á landi.
Lögregla segir þó að fyrir komi að ökumenn leggi af stað í fríið með þessi smáhús uppi á pallinum án þess að aðgæta nokkur mikilvæg atriði.
Burðarþol misjafnt
Einhverjir ökumenn hafa fest hús á pallinum án þess að athuga hvert burðarþol bílsins er og geta með því skapað hættu. Til dæmis er burðarþol Ford F150-pallbíls um 720 kg og inni í þeirri tölu eru þá allir farþegar og farangur. Pallhýsi vegur iðulega um 500-700 kíló og því ljóst að farþegar þurfa að vera léttir í spori og farangurslitlir eigi heildarþyngdin að vera undir mörkunum.Aðrir bílar búa yfir miklu burðarþoli. Ford F650-pallbíllinn hefur til dæmis burðarþol upp á 10 tonn og færi létt með að bera fjöldann allan af pallhýsum. Það virðast hins vegar ekki allir vita að lögum samkvæmt þarf aukin ökuréttindi fari heildarþyngd bifreiðar yfir 3.500 kíló.
Lögregla hvetur fólk til að vera á varðbergi gagnvart burðarþoli og þyngd bíla því afar erfitt er að hafa eftirlit með því að rétt sé staðið að málum. Pallhýsi eru ekki skráningarskyld og því hætt við að fólk fjárfesti í einu slíku, skelli því á pallinn og haldi af stað án þess að aðgæta hvort bíllinn er hannaður til að þola slíkt fyrirbæri.
Lögregla segir þó að flestir ökumenn hafi allan búnað í góðu lagi og það hafi verið ánægjulegt við eftirlitið í sumar að sjá hversu stór hluti ökumanna hafi gengið rétt frá öllu. Að sögn er helst að menn gleymi reglum um hliðarspegla og framlengingu þeirra þegar þess er þörf.
- Lögregla hvetur fólk til að vera á varðbergi gagnvart burðarþoli og þyngd bíla.