Óskar Stefánsson fæddist í Reykjavík 3. ágúst 1979. Hann lést af slysförum hinn 30. júní síðastliðinn.
Útför Óskars var gerð frá Grafarvogskirkju 9. júlí 2010.
Þegar þær hörmulegu fréttir bárust okkur yfir hafið að Óskar hefði lent í alvarlegu vinnuslysi helltist yfir okkur mikill doði sem síðar varð að sorg.
Óskar var einlægur maður með þægilega nærveru. Það skipti engu við hvaða aðstæður við hittum Óskar, við skildum ávallt við hann glöð með bros á vör. Hann var greindur maður og vel lesinn með gagnrýna hugsun. Hann gaf sér alltaf tíma og naut augnabliksins. Fyrir vikið var mjög gaman að ræða við hann, hvort sem það var um heimspeki, rauðvín, texta Bubba Morthens, kvikmyndir eða hvaðeina annað. Þessi áhugi á öllum hlutum birtist í skemmtilegri sérvisku og undarlegum áhugamálum. Okkur er mjög minnisstætt þegar við fórum öll á sólarströnd í 35 gráða hita en hann vildi frekar eyða deginum í að skoða hvað grískir stórmarkaðir hefðu upp á bjóða.
Það var einhver ólýsanleg blanda af þessari samræðuhæfni, forvitni og einlægum áhuga Óskars á nánast öllu sem gerði það að verkum að fólki virtist líða vel með honum. Það var sama hvort við vorum á bar á Hvammstanga eða á veitingahúsi á Krít, einhver tók Óskar tali og fyrr en varði voru þeir orðnir mestu mátar. Hann og Þórdís Kolbrún höfðu ekki verið saman lengi þegar hann fór að segja okkur fréttir af fjölskyldunni.
Óskar var barngóður og báru samskipti hans og Einars Robert því glöggt vitni. Fjóla Katrín, dóttir okkar, laðaðist strax að honum og þökkum við honum alla þá einlægu væntumþykju sem hann sýndi henni, sem og þær stundir sem við nutum saman með fjölskyldunni. Við kveðjum góðan dreng og vottum Þórdísi Kolbrúnu, Ísabellu og fjölskyldu Óskars okkar dýpstu samúð og biðjum Guð að gefa þeim styrk á þessum erfiðu tímum. Hvíl í friði.
Ásgeir Helgi og Jóhanna.
Mér finnst það hafa verið í gær sem ég sá þig í fyrsta skiptið. Mér leist strax svona helvíti vel á þig sem væntanlegan vin og bauð þér samstundis að koma með á Pixies. Verst hvað Ghostigital eyðilögðu gott kvöld. En ef okkur þótti eitthvað skemmtilegra en að tala um músík þá var það að tala illa um leiðinlega músík. Sætara var það ef öl var með um hönd. Þetta var upphafið að yndislegri vináttu.
Gaman var að fá þig og aðra vini í heimsókn og lauma Bítlunum á fóninn þegar leið á kvöldið. Þá fór allt í háaloft! Þér var meinilla við Bítlana en við hinir vinirnir elskuðum þá. Þá upphófst góð kverúlantarökræða um hvort Bítlarnir hefðu verið ömurlegir. Henni lauk vanalega þannig að þú settir út trompið! Þeir hefðu verið svo ofmetnir vegna þess að pródúserinn þeirra, George Martin, ætti miklu meira í velgengni þeirra en hann hefði fengið kredit fyrir. Þetta var ein ástæða þess hvað þú varst skemmtilegur – einstrengingshátturinn samtvinnaður djúpri þekkingu á því skrítna.
Um síðustu helgi voru Írskir dagar. Helgi sem alltaf var eyrnamerkt því að hanga með þér. Hvert sem ég leit þá sá ég þig. Strákar vildu vera vinir þínir og stelpur vildu vera með þér. Núna var enginn að leita, bara að gráta þig.
En það var ekki alltaf bjórsull, Appletinis og músík. Því stundum þegar ég hringdi í þig og vildi fá þig út var svarið að Ísabella væri hjá þér. Það var lykilorðið að því að þú ætlaðir að hafa það huggulegt með dóttur þinni. Þessir tveir heimar voru algerlega aðskildir og veit ég ekki um neinn sem ræktaði sig og sína eins vel og þú. Það gekk oft æði erfiðlega að fá þig út úr húsi þótt maður ætti von á þér. Þú fullkomnaðir hárgreiðsluna en oftast var það að þú festist í því að horfa á American Idol með Nönnu. Ekki held ég að Idol hafi raunverulega verið í einhverju uppáhaldi, mér kom ekki til hugar að spyrja. Heldur vissi ég að samveran með fjölskyldunni var þér svo kær að hún skyggði á allt.
Stundum náði maður þér svo í mat með Þórdísi. Það var alltaf gaman að gera vel við ykkur og njóta góðrar umræðu. Einn kommi og tveir sjallar gátu alveg átt gott skap saman – svo framarlega sem ekki var talað um pólitík!
Ég hafði hugsað mér að búa í sömu götu og þú í ellinni. Deila bjór, sögum og forræði yfir uppstoppuðum hundi. Halda áfram að hringja í þig í hvert sinn sem mér datt eitthvað asnalegt og fyndið í hug! Ég verð að hugga mig við það að þú varst sá guðræknasti sem ég umgekkst og vona að hittumst í lokin.
Ég vil að lokum senda fjölskyldu þinni og fjölmörgum vinum innilegar samúðarkveðjur.
Geir Guðjónsson.
Einar Robert sonur minn leit mikið upp til Óskars og var Óskar hans helsta fyrirmynd. Það fór ekki fram hjá neinum að Óskari þótti afar vænt um Einar Robert. Það er mér ofarlega í huga þegar Einar Robert varð fimm ára í mars sl. Þá komu Óskar og Þórdís í afmælið með svakalega flotta afmælisgjöf og ég spurði þau hvaða pakkaflóð þetta væri, þá sagði Þórdís mér að hún hefði verið búin að kaupa gjöf handa Einari Robert en þegar hún hefði komið heim með hana hefði Óskari ekki fundist þetta nóg og farið út í búð til að kaupa meira. Sú umhyggja, vinátta og hlýja sem Óskar sýndi syni mínum er okkur ómetanleg. Nokkrum dögum áður en Óskar lést vorum við búin að koma okkur saman um að þeir félagarnir myndu gera eitthvað skemmtilegt saman, eitthvað svona strákalegt eins og Óskar orðaði það. Einar Robert á erfitt með að skilja að Óskar sé farinn frá okkur og sé nú orðinn engill á himnum. Hann veit þó að Guð passar hann fyrir okkur.
Síðustu vikurnar áður en Óskar lést áttum við nokkur góð samtöl og ég er fegin að hafa getað reynst Óskari vinur í raun, því alltaf var Óskar til staðar fyrir mig þegar ég þurfti á vini að halda. Ég er ennþá að reyna að átta mig á því að þessi yndislegi vinur minn hafi verið tekinn frá okkur í blóma lífsins en ég trúi því að honum sé ætlað stærra og meira hlutverk hinum megin.
Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst Óskari og átt hann sem vin, þakklát fyrir allar góðu stundirnar. Ég bið góðan Guð og englana að vísa honum leið á nýjum og ókunnum vegum.
Ég og Einar Robert sendum öllum ástvinum Óskars okkar innilegustu samúðarkveðjur, megi minning um fallegan og yndislegan dreng lifa í hjörtum ykkar um ókomna tíð.
Dapurleg skilaboð dag einn ég fékk,
að dáinn sé vinurinn kæri.
Ég óskaði þess, er að gröf hans ég gekk,
að í grenndinni ennþá hann væri.
Sjálfur, ef vin þú átt góðan í grennd
gleymdu ekki, hvað sem á dynur,
að albesta sending af himnunum send
er sannur og einlægur vinur.
(Höf. ók. Þýð. Sig. Jónsson)
Kristín Adda Einarsdóttir.
Þinn vinur,
Steingrímur
í Litluhlíð 2a.