Elín Tryggvadóttir
Elín Tryggvadóttir
Eftir Elínu Tryggvadóttur: "Ég veit ekki um ykkur en þetta litla ef öskrar á mig!"

Það er nú öllum ljóst að kaup Magma Energy á HS orku eru ólögleg. Það er að segja öllum nema Samfylkingunni. Bakdyraleiðin var valin í kaupunum til að reyna, eins og hefð virðist vera fyrir, að slá ryki í augu almennings. Nú á að reyna að keyra þessi viðskipti í gegn til að lengja líf dauðvona ríkisstjórnar og þingmenn Vinstri grænna berast með straumnum gegn sinni betri sannfæringu.

Steingrímur J. Sigfússon segir að við sitjum uppi með þessa niðurstöðu í bili og virðist hafa lagt árar í bát þrátt fyrir mótmæli að minnsta kosti þriggja þingmanna og grasrótar flokksins. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra vill tryggja forkaupsréttindi ríkisins og stytta leigutímann. Hún segir í Fréttablaðinu 21. júlí að „þegar betur árar getum við farið inn í þessi kaup ef Magma ákveður að selja“ .

Ég veit ekki um ykkur en þetta litla ef öskrar á mig! Hvað ætlar iðnaðarráðherra að gera ef Magma ákveður ekki að selja? Kannski lítur iðnaðarráðherra svo á að hún verði hvort eð er ekkert við völd þá og sé þá stikk frí. Þetta sé vandamál komandi kynslóða. Hluti kaupverðsins er fenginn að láni hérlendis og ef allt fer á versta veg lendir tapið á Íslendingum en gróðinn verður alltaf kanadískur.

Er forsvaranlegt að leigja auðlindirnar okkar? Er forsvaranlegt að erlendir aðilar hafi aðgang að orkunni okkar til allt að 130 ára? Ætlum við að sitja hjá og horfa á lögleysi, siðleysi og skammsýni nokkurra manna leggja framtíð barnanna okkar að veði? Sama hversu hart er í ári þá selur maður ekki ömmu sína!

Höfundur er hjúkrunarfræðingur.

Höf.: Elínu Tryggvadóttur