Í tveim síðustu Vísnahornum voru rifjaðar upp vísur eftir sveitakonur fyrir vestan, svo að rétt þykir að bregða sér norður í land um stund og heyra hvað Ólafur Davíðsson náttúrufræðingur og sagnaþulur hefur að segja: Finnst mér lífið fúlt og kalt, fullt...

Í tveim síðustu Vísnahornum voru rifjaðar upp vísur eftir sveitakonur fyrir vestan, svo að rétt þykir að bregða sér norður í land um stund og heyra hvað Ólafur Davíðsson náttúrufræðingur og sagnaþulur hefur að segja:

Finnst mér lífið fúlt og kalt,

fullt er það af lygi og róg,

en brennivínið bætir allt,

bara ef það er drukkið nóg.

Í I. bindi af Blöndu eru rifjaðar upp gamlar karla- og kerlingarvísur:

Einu sinni karlinn kvað

við kerlinguna sína:

Mikið gerir ellin að

eg ætlaði varla að geta það!

Nógur er tíminn, kerling kvað,

að komast í himna höllu,

mér er nú ekki mikið um það –

maturinn er fyrir öllu.

Björn Gottskálksson orti um dvöl sína í Odda, en þar þóttist hann lítt haldinn, segir í annálum:

Manna þó ég missi sýn

miðjan fram á daginn,

hundurinn kemur helst til mín,

honum er tryggðin lagin.

Þessi staka kallar fram í hugann alkunnugt erindi eftir Grím Thomsen:

Frá því, hvar sem flækist maður,

í funa Serklands, Grænlands ís,

honum fylgir hundur glaður,

hundsins þar er Paradís;

hinn eini vinur aumingjans,

aldrei bila tryggðir hans.

Hólmfríður Þorláksdóttir auðga á Stóruvöllum hafði skilið við Halldór Brynjólfsson, en hann var bróðir Þóru, konu Péturs prófasts Péturssonar á Víðivöllum. Líkaði prófasti það stórilla, því að Halldór var auðnulítill og enginn fjáraflamaður. Eftir messu á Miklabæ flaðraði hundur Halldórs upp um Hólmfríði með vinalátum, en hún stjakaði honum frá sér. Þá orti prófast

Þessi hundur, Hólmfríður,

hefur lundar tryggðir.

Mikil undur! Manneskjur

miður stunda dyggðir.

Hér er gömul gáta um Seljalandsfoss:

Að kom ég þar elfan hörð

á var hlaupum fljótum;

undir vatni, ofan á jörð

arka ég þurrum fótum.

Gengt er bak við fossinn þurrum fótum.

Húsgangur úr Skagafirði:

Þar er kelda, þar er grjót,

þar kann margt að buga.

Ekki er gott að fara um Fljót

fyrir ókunnuga.

Bjarni Þorkelsson skipasmiður orti um þrotabú í Eyjafirði og eru víst eilíf sannindi:

Þegar félagseignin er

orðin nógu rúin,

forsprakkarnir sjálfum sér

selja þrotabúin.