Björgólfur Thor Hefur náð samkomulagi við lánardrottna sína innanlands sem utan og hyggst greiða upp allar sínar skuldir að fullu án eftirgjafar.
Björgólfur Thor Hefur náð samkomulagi við lánardrottna sína innanlands sem utan og hyggst greiða upp allar sínar skuldir að fullu án eftirgjafar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórður Gunnarsson thg@mbl.is Fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefur náð samkomulagi við lánardrottna sína á Íslandi og erlendis um greiðslu allra sinna skulda að fullu. Samkomulagið tekur einnig til félags Björgólfs Thors, Novators.

Þórður Gunnarsson

thg@mbl.is

Fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefur náð samkomulagi við lánardrottna sína á Íslandi og erlendis um greiðslu allra sinna skulda að fullu. Samkomulagið tekur einnig til félags Björgólfs Thors, Novators. Í tilkynningu sem Novator sendi frá sér í gær kemur fram að ætlunin er að gera allar skuldir upp án afskrifta, en Björgólfur verður áfram hluthafi í Actavis, símafyrirtækinu Play, CCP og Verne Holdings. Síðastnefnda fyrirtækið hefur undanfarið verið til umræðu vegna umdeilds fjárfestingarsamnings við íslensk stjórnvöld.

Actavis endurskipulagt

Ekki kemur fram í tilkynningunni hversu stórum hlut Björgólfur fær að halda eftir í fyrirtækjunum sem um ræðir. Þær upplýsingar fengust þó hjá Novator í gær að Björgólfur yrði ennþá meirihlutaeigandi Actavis, sem er langsamlega stærsta fyrirtækið í eignasafni hans. Samhliða samkomulagi Björgólfs er fjárhagslegri endurskipulagningu Actavis að sama skapi lokið. Novator tók Actavis yfir um miðjan júlí 2007, fáum dögum áður en úrvalsvísitala kauphallarinnar náði sínu hæsta gildi fyrr og síðar. Yfirtökuverðið var vel á fjórða milljarð evra, en lánveitandinn var Deutsche Bank. Eftir því sem leið á árið 2008 þurfti Landsbankinn hins vegar að hlaupa undir bagga með Actavis vegna veðkalla.

Allur arður af eignum Björgólfs og söluhagnaði af þeim, ef til hans kemur, mun renna til uppgjörs skuldanna. Persónulegar eigur Björgólfs eru þar einnig undir, til að mynda sumarbústaður á Þingvöllum. Samkvæmt upplýsingum frá Novator vonast Björgólfur til að hægt sé að ljúka skuldauppgjörinu á um það bil fimm árum. Fram að þeim tíma mun hann vinna í þágu kröfuhafa sinna, en vilji þeirra er sagður hafa staðið til þess að hann kæmi áfram að rekstri þeirra fyrirtækja sem eru undir hatti Novators.

Nærri persónulegu gjaldþroti

Björgólfur gaf ekki kost á viðtali í gær, en í tilkynningu Novators er haft eftir Björgólfi að hann hafi um tíma staðið frammi fyrir persónulegu gjaldþroti. Miklar persónulegar ábyrgðir hafi á hann fallið þegar 60 milljarða eign hans í Landsbankanum og Straumi urðu að engu. „Allt frá hruni hef ég unnið hörðum höndum að því að gera upp við lánardrottna mína og það uppgjör er loks í höfn. Vissulega hefur það í för með sér að umsvif mín verða mun minni en áður og ég mun verja næstu árum í störf í þágu þessara lánardrottna.“

Björgólfur ítrekaði mikla iðrun sína vegna þeirra mistaka sem hann kynni að hafa gert í aðdraganda bankahrunsins. Hins vegar benti hann á að engar gjörða hans hefðu hingað til verið tilefni málshöfðana eða riftana á samningum sem hann átti aðild að. „Ég er þess fullviss að ekkert slíkt tilefni gefst, enda tel ég mig engin lög hafa brotið.“

Björgólfur Thor

60

milljarðar króna var verðmæti eigna Björgólfs í Landsbanka og Straumi

5

ár er sá tími sem Björgólfur vonast til að ljúka skuldauppgjörinu

50%

er eignarhlutur Björgólfs Thors í Verne Holdings samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis

97

milljarðar er aukning skulda Björgólfs Thors og tengdra félaga frá því í janúar 2007 og fram að hruni.

3,5

milljarðar evra var kaupverð Actavis sumarið 2007, sem samsvaraði 25% eigin fjár Deutsche Bank.