Courchevel Skálinn sem var í eigu 101 Chalet er staðsettur í Courchevel í frönsku ölpunum. 101 Chalet fékk 6,6 milljóna evra yfirdrátt hjá Glitni sumarið 2008 til að kaupa skíðaskála á þessu eftirsótta svæði.
Courchevel Skálinn sem var í eigu 101 Chalet er staðsettur í Courchevel í frönsku ölpunum. 101 Chalet fékk 6,6 milljóna evra yfirdrátt hjá Glitni sumarið 2008 til að kaupa skíðaskála á þessu eftirsótta svæði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Þórður Gunnarsson thg@mbl.is Segja má að skíðaskáli í Courchevel sé miðpunktur kyrrsetningarmáls slitastjórnar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi aðaleiganda Glitnis.

Fréttaskýring

Þórður Gunnarsson

thg@mbl.is

Segja má að skíðaskáli í Courchevel sé miðpunktur kyrrsetningarmáls slitastjórnar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi aðaleiganda Glitnis. Félagið 101 Chalet var stofnað í kringum eignarhald á skíðaskálanum. Kyrrsetningarmálið er höfðað vegna skaðabótakröfu sem Glitnir hefur lýst á hendur Jóni Ásgeiri og ýmsum öðrum aðilum sem áður voru aðaleigendur Glitnis fyrir dómi í New York.

Forsaga málsins er sú að 101 Chalet keypti skíðaskálann sumarið 2008, en Glitnir fjármagnaði fyrstu afborgun kaupverðsins með 6,6 milljóna evra láni, sem voru 800 milljónir króna á þávirði. Fjármögnunin var til þriggja mánaða, en félögin BG Danmark og Piano Holding gengust í ábyrgð fyrir láninu sem var í formi yfirdráttar. Ætlunin var að belgíski bankinn Fortis myndi síðan taka við fjármögnunininni, en aldrei varð af því. Jón Ásgeir hélt því fram að systir hans, Kristín Jóhannesdóttir, hefði skrifað undir lánasamninginn gagnvart Glitni án hans vitundar. Kristín hefur hafnað þessu í samtölum við fjölmiðla, en Kristín var hluthafi í Fjárfestingarfélaginu Gaumi.

Ætluðu að losa fé

Skíðaskálinn sem um ræðir var síðan seldur í fyrra, en slitastjórn Glitnis heldur því fram að peningarnir sem fengust fyrir hann hafi runnið til Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Raunar kom fram í Morgunblaðinu 29. júlí í fyrra að Jón Ásgeir hefði sent Einari Þór Sverrissyni, lögmanni, tölvupóst þar sem áætlanir varðandi skálann voru kynntar. Þannig var áætlað að selja skálann með hagnaði, eftir að endurfjármögnun Fortis væri gengin í gegn. Í póstinum kom fram að fé sem myndi losna við þau viðskipti ætti að renna til „JÁJ/ISP“, sem eru eins og gefur að skilja skammstafanir á nöfnum Jóns og Ingibjargar. Jón Ásgeir hefur nú þegar greitt slitastjórn Glitnis tvo milljarða króna vegna málefna 101 Chalet, en áður hafði slitastjórnin höfðað mál á hendur þrotabúi Baugs vegna sömu kröfu, upp á tvo milljarða króna.

Þrotabúið vill rifta

Málið flækist þó enn frekar. Þrotabú Baugs hefur nefnilega höfðað riftunarmál vegna tilfærslu eigna frá Baugi til Gaums í október 2008. Á meðal þeirra eigna er sami skíðaskáli, en eignir voru færðar frá BG Danmark yfir til Gaums strax eftir hrun bankanna. Frá þessu var greint í Morgunblaðinu snemma á þessu ári.

Þrotabú Baugs krefst sex milljarða króna frá Gaumi vegna færslu eignanna, en fram kom í eignayfirliti Jóns Ásgeirs sem lagt var fyrir breska dómstóla að hlutafé fyrirtækisins væri metið á núll.

Raunar komu engir beinharðir peningar við sögu þegar eignir BG Danmark voru færðar yfir til Gaums. Gaumur hafði lánað Baugi veð í Glitnisbréfum, sem Baugur notaði til tryggingar á annarri lánalínu. Kröfunni sem Gaumur átti á Baug var síðan breytt í peningakröfu, sem notuð var til skuldajöfnunar við færslu skíðaskálans til Gaums. Ekki er ljóst hvort BG Danmark er enn í eigu Gaums.

101 Chalet
»Afdrif skíðaskála í Courchevel í frönsku ölpunum eru miðpunktur málflutnings slitastjórnar Glitnis í kyrrsetningarmáli á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.
» Félagið var fært frá BG Danmark til Gaums í október 2008 í viðskiptum þar sem ekkert reiðufé kom við sögu.
» Skíðaskálinn hefur nú verið seldur, en þrotabú Baugs telur engu að síður að færsla 101 Chalet til Gaums í október 2008 hafi verið ólögmæt.