Kannabis Lögregla hefur lagt hald á mikið af kannabisplöntum undanfarin ár. Portúgalska leiðin snýst um að leyfa vörslu fíkniefna til eigin nota.
Kannabis Lögregla hefur lagt hald á mikið af kannabisplöntum undanfarin ár. Portúgalska leiðin snýst um að leyfa vörslu fíkniefna til eigin nota. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Halldór Armand Ásgeirsson haa@mbl.is Portúgalska leiðin til að berjast gegn fíkniefnavandanum hefur ekki verið rædd eða könnuð sérstaklega af stjórnvöldum hér á landi.

Fréttaskýring

Halldór Armand Ásgeirsson

haa@mbl.is

Portúgalska leiðin til að berjast gegn fíkniefnavandanum hefur ekki verið rædd eða könnuð sérstaklega af stjórnvöldum hér á landi. Fyrir 10 árum tóku Portúgalar afar framsækið skref og kynntu til sögunnar nýja löggjöf sem fól í sér að varsla fíkniefna til einkanota, allt frá kannabisefnum til heróíns, var gerð heimil í lögum.

Innflutningur á eiturlyfjum var áfram refsiverður. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Löggjöfin var og er umdeild; margt bendir til þess að hún hafi heppnast afar vel en eins og alltaf eru jafnframt mótrök til staðar.

Í grein blaðakonunnar Susönu Ferreira í Wall Street Journal kemur fram að norsk stjórnvöld hafi skipað nefnd til að skoða leiðir til að minnka fíkniefnavandann og fulltrúar hennar hafi farið til Portúgals til að kynna sér leiðina.

Danskir stjórnmálamenn hafa einnig rætt möguleikann á að lögleiða fíkniefni með þessum hætti og þingkonan Mette Frederiksen hefur mikið vísað til portúgölsku leiðarinnar. „Í okkar augum er þetta spurning um að fíklar geti lifað betra lífi,“ sagði hún í viðtali við Berlingske Tidende í mars. „Við viljum fækka dauðsföllum og glæpum vegna fíkniefna.“

Hér á landi hefur lagasetning í gegnum tíðina í grunninn verið að stórum hluta lítið ljósrit af lagasetningu frændþjóða okkar.

Leiðin ekki rannsökuð hér

Að sögn Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra hefur þessi leið ekki verið athuguð sérstaklega. „Við horfum alltaf mikið til Norðurlandanna en þessi leið hefur ekki verið skoðuð sérstaklega hér. En ég veit að Norðmenn hafa að undanförnu unnið metnaðarfullt og mikið starf varðandi fíkniefnavandann og í heilbrigðisráðuneytinu er nú til athugunar skýrsla sem þeir unnu nýlega um málið,“ segir Álfheiður.

Það var vinstristjórn sem setti lögin í Portúgal við mikla andstöðu hægrimanna sem töldu að eiturlyfjaneysla í landinu myndi rjúka upp úr öllu valdi. Lögin hafa þó staðið óhreyfð síðan þá. Og tölfræðin er áhugaverð. Fyrir lagasetninguna voru um 100.000 heróínfíklar í Portúgal. Árið 2008 var talið að um 55.000 fíklar væru í landinu öllu, burtséð frá því hvaða efni þeir misnotuðu. HIV- og lifrarbólgusmitum hefur jafnframt fækkað umtalsvert. Ofbeldisbrot og manndráp hafa hins vegar aukist í kjölfarið í tengslum við innflutning en sumir telja það vera orsök af því að nú sé betur haldið utan um upplýsingar um glæpina.

Yfirmenn lögreglu þar í landi segjast ekki telja að ofbeldið haldist í hendur við lögleiðinguna og hafa lofað framtakið og þá breytingu sem felst í því að líta ekki á fíkla sem glæpamenn heldur sjúklinga.

Meðferðin er mikilvæg

Matthías Halldórsson landlæknir segir ástæðu til að fylgjast vel með hvað gefst vel í öðrum löndum.

„Aðstæður geta auðvitað verið öðruvísi milli landa en það er sjálfsagt að kanna og fylgjast með hvað er gert annars staðar. Ég tel að það eigi ekki að loka augunum fyrir neinu og sérstaklega ekki leiðum til að hindra glæpastarfsemina sem þrífst í kringum fíkniefnin.“

Meðferðarstarfsemi er jafnframt í lykilhlutverki í portúgölsku leiðinni. Um 40.000 manns nýttu sér meðferðarstöðvar og önnur úrræði árið 2008.

Spurt&svarað

Hvað hefur gerst í kjölfar lögleiðingarinnar í Portúgal?

Mestan mun sjá menn í fjölda fíkla. Þegar lögin urðu að veruleika glímdu Portúgalar við mikinn heróínvanda og um 100.000 heróínfíklar voru í landinu – um 1% mannfjöldans. Árið 2008 var talið að um 55.000 fíklar væru í landinu í öllum fíkniefnaflokkum.

Almenn neysla eiturlyfja hefur hins vegar aukist þar í landi líkt og í öðrum löndum í Evrópu og talið er að neysla kókaíns hafi tvöfaldast. Þá hafa ofbeldisglæpir og manndráp aukist umtalsvert í tengslum við fíkniefnaumferð.

Dauðsföllum vegna fíkniefnaneyslu hefur einnig fjölgað en að sögn má það að stórum hluta rekja til þeirra sem voru háðir heróíni áður en lögin tóku gildi. Sumir halda því jafnframt fram að betri gagnaöflun sé hluti af skýringunni.

HIV- og lifrarbólgusmitum, vandamál sem löngum hafa fylgt sprautufíklum, hefur á hinn bóginn fækkað umtalsvert.