Verslað Kaupmátturinn er nú svipaður og hann var síðla árs 2002.
Verslað Kaupmátturinn er nú svipaður og hann var síðla árs 2002. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Kaupmáttur launa hefur aukist um 0,3% á síðustu tólf mánuðum. Þetta er í fyrsta sinn sem kaupmátturinn eykst frá því í ársbyrjun 2008, að því er fram kom í Morgunkorni Íslandsbanka í gær. Vísitala kaupmáttar launa í júní sl.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Kaupmáttur launa hefur aukist um 0,3% á síðustu tólf mánuðum. Þetta er í fyrsta sinn sem kaupmátturinn eykst frá því í ársbyrjun 2008, að því er fram kom í Morgunkorni Íslandsbanka í gær. Vísitala kaupmáttar launa í júní sl. var 106,6 stig og hafði hún hækkað um 2,6% frá því í maí sl. samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur einnig fram að frá því að kaupmáttur hér á landi náði hámarki í ársbyrjun 2008 hefur hann að jafnaði minnkað um 11,3%. Kaupmátturinn er nú svipaður og hann var á síðari hluta ársins 2002. Kaupmáttaraukningin frá síðustu aldamótum hefur því að mestu gengið til baka undanfarin tvö og hálft ár.

Áhrif kjarasamninga

Launavísitalan í júní sl. var 378,3 stig og hafði hækkað um 2,2% frá því í maí sl. Launavísitalan hefur hækkað um 6,1% síðastliðna tólf mánuði. Á sama tímabili hækkaði neysluverðsvísitalan um 5,7%.

Hækkun launavísitölunnar í júní má rekja til hækkana samkvæmt kjarasamningum sem tóku gildi 1. júní sl. Launataxtar á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 6.500 kr., eða að lágmarki um 2,5%, frá 1. júní sl. Það var samkvæmt kjarasamningum á milli aðildarfélaga ASÍ og SA og samkomulagi um breytingar þeirra og framlengingu sem undirritað var 25. júní 2009. Laun félagsmanna Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja hækkuðu um 14.000 kr., eða að lágmarki um 2,5% þann 1. júní sl., samkvæmt samningi við SA.

Þá hækkuðu einnig laun í lægstu virku launaflokkum starfsmanna hjá hinu opinbera um 6.500 kr. um síðustu mánaðamót. Það var samkvæmt kjarasamningum sem launanefnd sveitarfélaga gerði við 33 stéttarfélög innan BSRB og ASÍ. Sambærilegt samkomulag var gert á milli ríkisins og hluta af aðildarfélögum BSRB og ASÍ.

FRAMKVÆMDASTJÓRI SA

„Kreppan er búin“

„Þetta þýðir bara eitt: Kreppan er búin,“ sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, um að starfandi fólki hafi fjölgað um 2.000 á milli ára. Hann kvaðst einnig ánægður með að kaupmáttur launa hefði hækkað í fyrsta sinn eftir hrun.

Vilhjálmur telur að nú taki hjól atvinnulífsins loks að snúast í rétta átt þótt enn sé langt í land. Hann telur jafnframt brýnt að hvetja til fjárfestinga í fyrirtækjum til að auka atvinnu.

jonasmargeir@mbl.is