Arngrímur Pálsson var fæddur í Kollugerði í Glæsibæjarhreppi 27. febrúar 1931. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 6. júlí 2010.
Foreldrar hans voru hjónin Páll Benediktsson frá Klúkum, Hrafnagilshreppi, f. 4. nóvember 1885, d. 15. september 1961 og Anna María Kristjánsdóttir frá Ytra-Krossanesi, Glæsibæjarhreppi, f. 22. júlí 1893, d. 10. mars 1990. Arngrímur var yngstur átta systkina, tvö dóu í frumbernsku en sex komust til fullorðinsára. Þau hétu Fjóla, f. 1914, d. 2001, Kristján, f. 1918, d. 1995, Helga Margrét, f. 1923, Friðjón, f. 1925, d. 2007, Eggert, f. 1927. Hinn 5. júní 1954 kvæntist Arngrímur Maríu Svövu Jósepsdóttur frá Sandvík í Glerárþorpi. María var fædd 28. maí 1934, d. 15. janúar 1977. Foreldrar Maríu voru Guðrún Jóhannesdóttir frá Þverá, Hálshreppi, S-Þing, f. 23. apríl 1907, d. 21. apríl 1907, og Jósep Sigurgeir Kristjánsson frá Gásum, Glæsibæjarhreppi, f. 14. maí 1906, d. 24. desember 1985. Börn Arngríms og Maríu: 1) Sigurgeir, f. 15. febrúar 1954, maki Kristjána Sóley Aðalbjörnsdóttir. Börn þeirra eru: Sigurbjörn Arnar, f. 27. febrúar 1983 og María Svava, f. 27. ágúst 1989. 2) Guðrún Elva, f. 16. febrúar 1958, maki Sigurður Þorri Sigurðsson. Börn þeirra eru: Sigurður Atli Sigurðsson, f. 19. október 1982, maki Elva Mjöll Þórsdóttir. Barn þeirra Emilía Hrönn, f. 28. febrúar 2010. María Sif, f. 14. apríl 1985, sambýlismaður Steinar Hugi Sigurðarson, Andri Hrafn, f. 7. júlí 1989, unnusta Kristín Ósk Óskarsdóttir, Arnór Þorri, f. 18. október 1994. 3) Atli Rúnar, f. 24. ágúst 1964, maki Eydís Björk Davíðsdóttir. Börn þeirra eru: Arnar Logi, f. 26. júní 1995, Kristófer Orri, f. 11. september 1997, Hrönn, f. 10. ágúst 1999, Sara, f. 10. ágúst 1999. Arngrímur starfaði við verslunar- og afgreiðslustörf hjá KEA allan sinn starfsaldur eða 55 ár. Fyrst starfaði hann hjá Pylsugerðinni, svo Kjötiðnaðarstöðinni og síðast hjá Norðlenska, en þar lauk hann sínum starfsferli árið 2001.
Útför Arngríms hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Mér er bæði ljúft og skylt að setja nokkur orð á blað til minningar um tengdaföður minn Arngrím Pálsson.
Ég kynntist Grími eins og hann ávallt var kallaður fyrir hartnær 30 árum. Það leið ekki langur tími þangað til ég kynntist þeirri manngæsku og trygglyndi sem hann bjó yfir. Það var alltaf mikil tilhlökkun hjá okkur fjölskyldunni að fara í heimsókn norður til Akureyrar. Alltaf var jafnvel á móti okkur tekið. Grímur var ávallt búinn að bera fram glæsilegar veitingar þegar okkur bar að garði. Þau eru ófá skiptin sem við hringdum norður til að fá leiðbeiningar við matargerð. Einkum varðandi allt sem snerti kjötrétti.
Grímur var mikill náttúruunnandi alla tíð. Hann ræktaði kartöflur í stórum stíl, og var afkastamikill við berjatínslu og nutum við fjölskyldan svo sannarlega góðs af því.
Mig langar að lokum til þess að láta Huldu skáldkonu túlka þakkir mínar og kveðjur í litlu ljóði úr einu hinna huglúfu kvæða hennar.
Ég minnist – þakka allt og óska þér
um eilífð góðs er héðan burt þú fer.
Far vel, far vel. Þig vorsins dísir geymi
og vaki blessun yfir þínum heimi.
Sigurður Þorri Sigurðsson.
Þegar við hugsum um afa koma óteljandi fallegar minningar upp í hugann því hann var yndislegur maður í alla staði. Hann var virkilega þægilegur í umgengni og hægt var að tala við hann um allt milli himins og jarðar. Hann hafði einstakan húmor og við hlógum mikið saman.
Allar góðu minningarnar úr Byggðaveginum eru okkur virkilega dýrmætar. Afi tók alltaf vel á móti okkur og ávallt var nóg af kræsingum á borðstólum. Garðurinn var honum dýrmætur, einkum gullregnið sem stóð fyrir framan húsið og blómstraði fagurlega hvert sumar. Þau voru ófá skiptin sem við hjálpuðumst að við að gera garðinn fínan enda gamall verðlaunagarður sem hann lagði áherslu á að halda vel við.
Kartöflurækt og veðrátta voru áhugamál afa. Hann kynnti sér og prófaði fjölda kartöflutegunda og það var ávallt mikið tilhlökkunarefni að taka nýju kartöflurnar upp með honum. Spáð var í veðrið alla daga og fannst honum mjög notalegt að vera í sólinni. Með gamla barómetinu sem hékk í stofunni gat hann áætlað hvernig veðrið yrði næstu daga.
Okkur þótti öllum svo óendanlega vænt um þig, elsku afi. Takk fyrir allar þær yndislegu stundir sem við höfum átt saman og hversu einstakur afi þú varst. Við trúum því að nú séuð þið amma saman á ný á fallegum og sólríkum stað.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(Valdimar Briem.)
Blessuð sé minning þín, elsku afi okkar.
Þín afabörn,
Sigurður Atli, María Sif,
Andri Hrafn og Arnór Þorri.
Takk fyrir að vera langbesti afi sem hægt er að hugsa sér.
Þú varst alltaf svo góður og svo blíður. Við söknum þín óendanlega mikið, það vantar þig á hverjum degi. En við eigum fallegar og einstakar minningar um þig með okkur, jólin, ferðir í berjamó, rúntarnir og spilastundirnar.
Svo varstu líka oft að lesa fyrir okkur og læddir að okkur visku þinni um dugnað, hjálpsemi við náungann og að allir ættu að vera vinir. Þetta geymum við í hjarta okkar alla tíð.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson.)
Takk fyrir allt, elsku afi, við elskum þig.
Þín afabörn,
Arnar Logi, Kristófer Orri, Sara og Hrönn.