Bjarni Ólafsson
bjarni@mbl.is
Afhending á fjórum Boeing 787 Dreamliner-vélum, sem Icelandair Group-samstæðan hefur pantað, hefur dregist um tvö og hálft ár og alls er óvíst hvenær fyrsta vélin verður afhent. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir hugsanlegan skaðabótarétt af þessum sökum eitthvað sem þurfi að skoða, en það sé alls ekkert gefið í þeim efnum.
„Við erum að vinna í þessum málum, en fyrr en við fáum á hreint hvenær vélarnar koma er erfitt að gera áætlanir. Icelandair Group hefur pantað fjórar vélar, eina fyrir Travel Service og þrjár fyrir Icelandair. Þá hefur Icelandair möguleika á að fá þrjár vélar til viðbótar og Travel Service eina. Við teljum ennþá að þetta séu góð kaup og að Dreamliner-vélarnar eigi eftir að reynast árangursríkar í rekstri. Það er vel hugsanlegt að við munum nýta möguleikann á kaupum á viðbótarvélum, en fyrsta mál á dagskrá er að vinna úr þeim vélum sem við höfum þegar pantað,“ segir Björgólfur.
Hann undirstrikar að ekkert muni ráðast fyrr en fyrirtækið fær það á hreint hvenær vélarnar verða afhentar.
Fyrsta flug utan Bandaríkjanna
„Boeing var nýlega að boða sex mánaða töf í viðbót, sem þýðir að við fáum ekki fyrstu vél afhenta fyrr en einhvern tímann á árinu 2013. Hvað varðar hugsanlegar skaðabætur er það eitthvað sem við þurfum að skoða, en viðræður okkar við Boeing hafa verið í eðlilegum farvegi.“Dreamliner-vélinni var í fyrsta sinn flogið utan Bandaríkjanna á sunnudaginn, þegar ein slík lenti í Bretlandi, þar sem hún mun taka þátt í flugsýningu.
Upphaflegar áætlanir Boeing gerðu ráð fyrir því að fyrstu Dreamliner-vélarnar yrðu afhentar viðskiptavinum árið 2008, en Boeing segir nú að fyrstu viðskiptavinirnir, japönsk flugfélög, muni fá vélarnar afhentar á fjórða ársfjórðungi þessa árs.