Í ár eru 50 ár liðin frá því að skáldsaga Halldórs Laxness, Paradísarheimt , kom út og í kvöld kl. 20 mun Fred E. Woods prófessor halda fyrirlestur á Gljúfrasteini um heimsóknir Halldórs til Vesturheims, tengsl skáldsins við mormónatrúna og skrif skáldsögunnar fyrrnefndu. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku.
„Ég ætla að fjalla um staðreyndirnar að baki skáldsögunni Paradísarheimt , að Laxness hafi farið til Utah nokkrum sinnum til að kynna sér mormónatrú og bréf sem ég fann sem hann skrifaði fólki þar og svarbréf. Ég kynnti mér líka minnisbók sem hann skrifaði þegar hann var þar,“ segir Woods. Paradísarheimt segir frá Íslendingi sem snýst til mormónatrúar, fer til Utah í leit að Paradís en finnur hana ekki og snýr því aftur til fósturjarðarinnar.
Woods segir Laxness hafa verið frábæran rithöfund og að hann hafi nýtt sér skáldaleyfi í umfjöllun sinni um mormónatrú í bókinni. Af bréfum hans að dæma hafi hann kunnað vel við mormónana í Utah og þeir vel við hann.
Woods hefur gegnt stöðu prófessors við Brigham Young University í Provo í Utah í Bandaríkjunum í deild sem helgar sig trúarsögu og kennisetningum mormónakirkjunnar.