Fréttaskýring
Bjarni Ólafsson
bjarni@mbl.is
Vinnutap vegna kreppunnar, hvort heldur það er mælt í störfum, stöðugildum eða vinnustundum, hefur lent að langmestu leyti á íslenskum körlum. Staða kvenna er hins vegar mun betri í samanburði. Þegar tölur Hagstofunnar um atvinnuleysi eru skoðaðar sést að atvinnuleysi á öðrum ársfjórðungi í ár mældist 8,7 prósent samanborið við 9,1 prósent í fyrra. Það segir hins vegar ekki alla söguna. Störfum á íslenskum vinnumarkaði fjölgaði um 2.000 á milli ára, en fjölgunin var öll hjá konum. Fjöldi starfa hjá körlum stóð í stað á milli ára.
Körlum í fullu starfi fækkaði um 200 frá árinu 2009 en körlum í hlutastarfi fjölgaði um 200. Stöðugildum hjá körlum fækkaði því um 109, þegar tekið er mið af vinnustundum. Konum í fullu starfi fjölgaði hins vegar um 1.300 og konum í hlutastarfi fjölgaði um 700, sem felur í sér fjölgun stöðugilda um 1.953.
Breytingin frá öðrum fjórðungi 2008 er enn meiri, körlum í óhag. Störfum karla hefur fækkað um 11,2 prósent, körlum í fullu starfi hefur fækkað um 14,7 prósent og stöðugildum hefur fækkað um 12,8 prósent frá árinu 2008.
Á sama tímabili hefur störfum kvenna fækkað um 1,0 prósent, konum í fullu starfi hefur fækkað um 3,1 prósent og stöðugildum hefur fækkað um 1,3 prósent frá öðrum fjórðungi 2008.
Þegar reynt er að slá á fjölda vinnustunda í vinnuvikunni, með því að margfalda fjölda fullra starfa með meðalfjölda vinnustunda og leggja það saman við útreikning varðandi hlutastörf sést að vinnustundum karla hefur fækkað um 16,2 prósent frá 2008, en fjölgaði um 0,3 prósent frá 2009.
Konum fjölgar, körlum fækkar
Vinnustundum kvenna hefur hins vegar fækkað um 4,1 prósent frá 2008, en fjölgaði um 2,6 prósent frá 2009.Mælt atvinnuleysi meðal karla á öðrum ársfjórðungi í ár mældist 9,4 prósent en 8,0 prósent meðal kvenna. Þetta virðist ekki í samræmi við það sem áður hefur verið sagt. Hafa ber hins vegar í huga að frá öðrum fjórðungi 2008 hefur körlum á vinnumarkaði fækkað um 5.300 en konum á vinnumarkaði hefur fjölgað um 2.900 á sama tíma. Þar sem atvinnuleysisprósentan er hlutfall þeirra sem eru í vinnu á móti vinnuafli þýðir þetta að fækkun karla á vinnumarkaði minnkar mælt atvinnuleysi þeirra og fjölgun kvenna á vinnumarkaði hækkar mælt atvinnuleysi hjá þeim.