Alcoa Fjarðaál flutti ál út fyrir að jafnaði 200 milljónir króna á dag í fyrra, miðað við gengi dollarans í desember 2009. Þetta kemur fram í fréttabréfi fyrirtækisins, Fjarðaálsfréttum. Heildarútflutningur fyrirtækisins á árinu var að andvirði 600 milljóna dollara, eða um 75 milljarða króna. Um 40% útflutningstekna fyrirtækisins verða eftir hér á landi.
Álver félagsins í Reyðarfirði tók til starfa á fyrri hluta árs 2007, en um höfnina þar, Mjóeyrarhöfn, fara nú um 1,3 milljónir tonna af áli og aðföngum til álframleiðslu á ári. Um 40% allra vöruflutninga frá Íslandi eru flutningar á áli.
Móðurfélag Alcoa Fjarðaáls, Alcoa, hagnaðist um 136 milljónir dala á öðrum fjórðungi þessa árs, eða sem svarar 17 milljörðum króna, sem er umtalsverður viðsnúningur. Á sama tíma í fyrra var 454 milljóna dala tap á rekstrinum. Á fyrsta fjórðungi þessa árs var tap af rekstri rúmlega 200 milljónir dala, um 25 milljarðar króna. Sala til bíla- og umbúðaframleiðenda jókst á ársfjórðungnum. Í upphafi árs spáði félagið 10% aukningu á eftirspurn eftir áli, en reiknar nú með að heildareftispurn á árinu aukist um 12%.
einarorn@mbl.is