ÍR-ingurinn Kristín Birna Ólafsdóttir hafnaði í 2. sæti í 100 metra grindahlaupi á Hurdles Festival-mótinu í Árósum í Danmörku í gærkvöldi. Kristín náði auk þess 3. sæti í 400 metra grindahlaupi sem einnig fór fram í gær. Vegna bilunar í tímatökubúnaði þurfti að notast við handtímatöku í báðum tilfellum. Kristín hljóp 100 metrana á 13,6 sekúndum og á 58,2 sekúndum í 400 metrunum. Báðir tímarnir eru nálægt hennar besta eftir því sem fram kemur á heimasíðu ÍR-inga og því ætti Kristín að geta bætt sig enn frekar á næstunni. Framundan er stórt verkefni hjá Kristínu Birnu því hún verður á meðal keppenda á EM í Barcelona. Í Katalóníu mun Kristín spretta úr spori í 400 metra grindahlaupi hinn 27. júlí. kris@mbl.is