Rósa Björg Karlsdóttir fæddist þann 27.10. 1941 í Reykjavík. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi þann 13.7. 2010.

Foreldrar hennar voru hjónin Gunnlaug Charlotta Eggertsdóttir, f. 14.5. 1905 á Sauðárkróki, d. 6.12. 1990, og Karl Guðmundsson f. 16.6. 1895 á Skerðingsstöðum í Hvammshreppi, d. 13.2. 1971. Systkin Rósu Bjargar eru: 1) Snorri f. 15.4. 1930, d. 13.12. 2007, maki Sigríður Guðmundsdóttir f. 8.8. 1929, d. 29.7. 2003; 2) Hörður f. 24.6. 1933, maki Maria Karlsson f.1.9. 1948; 3) Sigurlaug Ragnheiður f. 20.6. 1943, d. 7.4. 1996, maki Páll B. Helgason f. 22.6. 1938.

Rósa Björg giftist 7. desember 1963 Hirti H. Hjartarsyni lögfræðingi f. 27.10. 1928, d. 4.9. 1997. Hjörtur var sonur hjónanna Vilborgar Bjarnadóttur f. 30.10. 1896, d. 22.4. 1986, og Hjartar Björnssonar úrsmiðameistara f. 13.6. 1900, d. 12.3. 1983. Synir Rósu Bjargar eru: 1) Karl Ásbjörn Hjartarson, byggingafræðingur, f. 6.7. 1960, maki Elísabet Sólstað Valdimarsdóttir, leikskólakennari, f. 20.11. 1962. Börn þeirra eru Daníel Andri Karlsson, f. 9.10. 1996, og Telma Rós Karlsdóttir f. 5.10. 1999. 2) Ragnar Hjartarson, stjórnmálafræðingur, f. 21.5. 1965.

Rósa Björg hóf störf við almenn skrifstofustörf á borgarskrifstofunum í Reykjavík 1959 og starfaði þar til 1963. Árið 1971 hóf hún störf hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík og starfaði þar sem deildarfulltrúi þar til Gjaldheimtan var sameinuð Tollstjóranum í Reykjavík 1998 en hjá Tollstjóranum starfaði hún þar til hún lét af störfum árið 2009.

Útför Rósu Bjargar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 22. júlí 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku amma Rósa, það er svo sorglegt að þú skulir vera dáin. Við hefðum viljað geta átt fleiri stundir með þér síðasta ár en þú varst svo mikið lasin og gast ekki komið eins oft til okkar og áður. Við viljum muna eftir öllum skemmtilegu stundunum þegar þér leið vel. Þú varst alltaf kát og hress þegar þú varst með okkur. Þú vildir alltaf fylgjast með því hvernig okkur gekk í skólanum og sagðir að það væri mikilvægt að standa sig vel. Þú hlakkaðir alltaf til jólanna því þá kom Ragnar frændi heim til Íslands eða við fórum til hans, þér fannst svo gaman að hafa fjölskylduna saman. Ein besta minningin um þig er þegar við fórum öll saman til Parísar um jólin að heimsækja Ragnar. Þegar við vorum þar fórum við öll saman í Disneyland, það var svo gaman, þar sáum við flugelda og jólaskrúðgöngu og þú skemmtir þér eins vel og við. Einnig fórum við á mörg kaffihús sem var eitt það skemmtilegasta sem þú gerðir, þér fannst svo gaman að fylgjast með lífinu í kringum þig. Við fórum líka saman til Danmerkur og héldum skemmtileg jól þar. Þú varst alltaf til í að spila við okkur á spil þegar við vorum í heimsókn hjá þér og fannst skemmtilegt að fara með okkur í miðbæinn og skoða í búðir.

Elsku amma Rósa, við söknum þín svo mikið og erum sorgmædd yfir því að geta ekki hitt þig aftur. Takk fyrir allar góðu stundirnar með þér og við munum alltaf elska þig.

Daníel Andri og Telma Rós.

Við systkinin eigum margar ljúfar minningar um Rósu, móðursystur okkar.

Okkur er minnistætt þegar Rósa flutti í Granaskjólið í Vesturbænum. Þetta hús endurspeglaði hæfileika Rósu að gera fallegt í kringum sig en húsið var mjög smekklega innréttað að utan sem innan. Ef maður leit inn í heimsókn var Rósa í essinu sínu og það var mjög gaman að sækja þau hjónin heim.

Það var ævintýri líkast að koma niður í kjallarann hennar Rósu. Hún hafði auga fyrir gömlum, fallegum hlutum sem hún stillti skemmtilega upp. Rósa gat endalaust sýnt manni hluti sem búið var að laga, klippa og setja saman. Glæsilegt safn átti Rósa af flottum vintage-ballkjólum sem hverja unga stúlku hefði dreymt um að eiga. Rósa setti saman glæsilegar möppur úr gömlum ljósmyndum úr safni foreldra sinna og tengdaforeldra og synir hennar njóta góðs af því í dag að eiga úrklippumöppur um afrek bernskunnar.

Í einu herberginu var búr fullt af gömlum matarstellum, annað var fullt af gömlum húsgögnum og svo má lengi telja. Svo sannarlega ævintýraheimur fyrir okkur enda fylgdi yfirleitt smásaga með hverjum hlut. Rósa var mjög glæsileg kona. Hún var há og grönn og bar allan fatnað vel. Við munum ekki eftir henni öðruvísi en í pilsi og háhæluðum skóm, hvort sem hún var að skreppa í bæinn eða fara í garðyrkjustörfin.

Líf Rósu breyttist mikið þegar Hjörtur hennar dó. Allt í einu stóð hún í þeim sporum að þurfa að takast á við hluti sem hún hafði aldrei þurft að gera áður. Hún tók bílpróf að nálgast sextugsaldurinn og gerði það með glans. Hún fór í fyrsta skipti ein til útlanda til að heimsækja Ragnar í París. Mikið dáðumst við að dugnaðinum í Rósu.

Í dag kveðjum við hæfileikaríka konu með gott og hlýtt hjarta. Megi hún hvíla í friði með guðs englum.

Við systkinin vottum Kalla, Ragnari, Diddu, Daniel og Telmu Rós okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Arna, Gunnlaug, Ragnheiður

og Snorri Sillubörn.

Ég hef þekkt Rósu síðan á menntaskólaárum mínum eða frá því að ég kynntist mínum kæra vini Ragnari. Rósa var um margt einstök kona. Nútímaleg í hugsun, bráðhugguleg og hafði léttar og nokkuð kvikar hreyfingar. Hún var áhugasöm um umhverfi sitt, smekkleg og naut þess að hafa fallegt í kringum sig. Fyrir mér var hún líka öðrum þræði dálítill bóhem sem naut þess að sitja á kaffihúsi, hérlendis eða erlendis, og fylgjast með mannlífinu. Hún hafði áhuga á fólki, ekki hvað síst okkur unga fólkinu, vinum Ragnars, og naut þess að fylgjast með því sem við tókum okkur fyrir hendur og eiga við okkur líflegar og skemmtilegar samræður. En einmitt hið afslappaða fas hennar, glaðlyndi, hlýja og hlátur áttu stóran þátt í því að við vorum alltaf meira og minna heima hjá Ragnari og foreldrum hans í Granaskjóli. Þar stóð heimilið alltaf opið, við vorum ávallt velkomin og nutum mikillar gestrisni. Rósa var stundum eins og ein af okkur og sat og spjallaði meðan Ragnar eldaði matinn. Ég man að hún sagði stundum að hún ætlaði aldrei að verða gömul og átti þá auðvitað ekki við gömul í árum talið heldur í hugsun. Það fannst mér henni takast fyllilega og mættu fleiri taka sér þetta viðhorf til fyrirmyndar.

Eftir að Ragnar fluttist utan hitti ég Rósu sjaldnar en öðru hvoru mæltum við okkur mót á kaffihúsi og fórum yfir mál líðandi stundar. Alltaf sýndi hún af sér yfirbragð heimskonunnar, sýndi áhuga á öllu því sem maður var að fást við og naut sín í frásögnum af sonum sínum þeim Ragnari og Karli. Mér fannst alla tíð samband hennar og Ragnars vera fallegt og einstakt. Þau voru mjög náin, miklir vinir og báru ríka umhyggju hvort fyrir öðru. Henni var eðlislægt að sýna stuðning, hvatningu og jákvæð viðbrögð við hugmyndum hans og fyrirætlunum. Hefur það mótað sjálfsmynd hans og styrkt og verið honum ómetanlegt veganesti.

Ragnari, Karli og fjölskyldunni allri sendi ég samúðarkveðju.

Kristín Jóhannesdóttir.

Ég var um það bil fjögurra ára þegar ég hitti Rósu fyrst. Hún var mamma hans Ragga sem ég byrjaði að leika mér við þegar ég flutti á Fornhagann. Ég man eftir Rósu svo glæsilegri, hún var alltaf svo fallega til höfð og góð við okkur krakkana. Við heyrðum sögur af því þegar hún var í leiklistinni í gamla daga og við dáðumst að fallegum ljósmyndum af henni.

Rósa fylgdist af áhuga og hlýju með öllu því sem við í Basúkaklíkunni tókum okkur fyrir hendur og lifði sig inn í hlutina. Það voru náin vináttuböndin sem mynduðust á þessum árum og það eru margar góðar minningar. Hennar heimili var okkur opið, meira að segja á aðfangadagskvöld þegar við systurnar, montnar í bragði, þrömmuðum niður á Ægisíðu 76 til þess að sýna fjölskyldunni þar nýju múnbútsstígvélin sem við fengum í jólagjöf.

Síðan eru liðin mörg ár en vináttan hefur haldist allt til dagsins í dag. Rósa flutti síðar á Vesturgötuna í nánd við okkur og það var alltaf gaman að hitta hana. Maður fann væntumþykjuna og áhugann á okkur í fjölskyldunni og síðar á dætrum mínum.

Ég vil þakka Rósu fyrir samfylgdina. Guð blessi hana og veiti Ragnari, Karli og fjölskyldum styrk í sorginni.

Hrönn Marinósdóttir.

Kveðja frá saumaklúbbsvinkonum

Á sólbjörtum

drottins dýrðardegi

stíg ég af strönd lífsins

út á fjallavatnið íslenska.

(Ólafur Ragnarsson.)

Elsku Rósa okkar er fallin frá.

Það kom okkur sem höfum fylgst með henni undanfarið, bæði heima og á sjúkrahúsum, ekki á óvart.

Þessi lífsglaða glæsikona á háu hælunum með fegurðarblett á vanga, létt í fasi og allri hreyfingu hefur verið okkur flestum samferða allt frá bernsku í Kópavoginum.

Þaðan eru margar minningar, oft hittumst við á Rútstúni, farið var í ýmsa leiki og fjaran skoðuð. Þaðan lá leið hennar og tveggja okkar í verknámsdeild Gagnfræðaskólans í Brautarholti, þar sem hún tók virkan þátt í félagslífi skólans og sérstaklega í leiklist. Hún lék í uppfærslu hjá Leikfélagi Kópavogs, bjó yfir góðum hæfileikum og hafði gaman af.

Rósa hóf störf hjá Gjaldheimtunni og vann þar og hjá Tollstjóra næstum allan sinn starfsaldur þar til hún hætti vegna veikinda haustið 2008.

Rósa eignaðist tvo syni, Karl Ásbjörn og Ragnar. Eiginmaður hennar var Hjörtur Hjartarson lögfræðingur sem lést snögglega í september 1997.

Karl býr í Mosfellsbæ ásamt eiginkonu sinni og börnum þeirra tveimur og hafði hún yndi af að fylgjast með uppvexti þeirra.

Ragnar hefur búið erlendis í París og Kaupmannahöfn. Ein jól áttu þau öll saman í Kaupmannahöfn og voru það henni ljúfar minningar.

Rósa elskaði París og fór þangað ófáar ferðir eftir að sonur hennar Ragnar settist þar að. Hún var ekta Parísardama, borgarbarn, alltaf velklædd og naut þess að sitja á kaffihúsum heimsborgarinnar með sitt hvítvínsglas og sígarettu og fylgjast með auðugu mannlífinu. Einnig heimsótti hún Ragnar nokkrum sinnum til Kaupmannahafnar og naut borgarlífsins þar.

Rósa hafði mjög fágaðan smekk og bar heimili hennar þess glöggan vott. Þar var vel tekið á móti okkur, saumaklúbbnum gegnum árin. En við höfum verið í þeim klúbbi yfir 50 ár. Hún fór sínar eigin leiðir, kurteisi var einn af hennar kostum, en hún var dul og hleypti ekki öllum að sér. Einnig var hún orðvör og hallmælti ekki öðru fólki. Við og makar okkar þökkum fyrir allar ljúfu stundirnar á heimili þeirra hjóna, meðan Hjörtur lifði, og Rósu fyrir góðu saumaklúbbana eftir að hún varð ein.

Við fórum saman í ógleymanlega ferð árið 2001 í tilefni 60 ára afmælis okkar. Byrjuðum á Ítalíu, keyrðum gegnum Austurríki og Þýskaland og enduðum í Prag. Því miður urðu hennar utanlandsferðir ekki fleiri með okkur, en alltaf dreymdi okkur um Parísarferð með Rósu, en svona er lífið, nú er það orðið of seint.

Við kveðjum Rósu með söknuði, en munum hana glaða og glæsilega, gangandi um miðborg Reykjavíkur.

Sonum hennar og fjölskyldu sendum við samúðarkveðjur.

Hvíl í friði, kæra vinkona.

Við munum ei ár eða daga

heldur andrá sem geymist

í skínandi skúffum

í skattholi hugans.

(Ó.R.)

Áslaug, Bergþóra,

Halla og Hrund.