Dívurnar Kylie Minogue og Ana Matronic úr hljómsveitinni Scissor Sisters saman á sviðið á Glastonbury-tónlistarhátíðinni í sumar.
Dívurnar Kylie Minogue og Ana Matronic úr hljómsveitinni Scissor Sisters saman á sviðið á Glastonbury-tónlistarhátíðinni í sumar. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þær eru ekki margar söngkonurnar sem hafa gengið í gegnum jafnmörg tónlistartímabil og hin ástralska Kylie Minogue.

Þær eru ekki margar söngkonurnar sem hafa gengið í gegnum jafnmörg tónlistartímabil og hin ástralska Kylie Minogue. Eftir að hafa slegið í gegn sem leikkona í þáttunum um Nágranna, hóf Minogue söngferilinn undir lok níunda áratugarins og sló heldur betur í gegn með poppsmellnum „I Should Be So Lucky“ sem komst á toppmetsölulista víða um heim, þ.ám í Bretlandi og heimalandinu hennar, Ástralíu. Hún kom stuttlega við í indítónlistinni þegar hún söng dúett með Nick Cave, áður en poppið og danstónlistin tók aftur við fyrir um það bil tíu árum.

Fyrir langtíma-aðdáendur söngkonunnar er nýjasta plata hennar Aphrodite ákveðið framhald af plötunum Fever og Light Years sem litu dagsins ljós í byrjun áratugarins. Hér ræður popptónlistin ríkjum og hvert lag plötunnar er eins og það sé sérhannað til að ná inn á topp tíu lista hvar sem er í heiminum. Í raun og veru er ekkert athugavert við það, þannig er bara sú tónlist sem Minogue gerir. Fyrsta smáskífan af Aphrodite er lagið „All the Lovers“ sem er jafnframt upphafslag plötunnar. Í laginu fær upptökustjórinn Stuart Price að leika lausum hala, en hann hefur unnið mikið með Madonnu og nú síðast við nýju Scissor Sisters-plötuna. Það er því ekki erfitt að ímynda sér diskótek fullt af fólki í evrópskri stórborg þar sem þetta lag er í stöðugri spilun langt fram eftir nóttu. Sama á við um lögin „Get Outta My“, „Better Than Today“, „Can't Beat the Feeling“ og titillagið „Aphrodite“.

Þegar Aphrodite er gerð upp er hér um hreinræktaða Minogue-plötu að ræða og á henni er að finna samsafn af því sem söngkona hefur gert á 23 ára löngum ferli sínum. Platan er vissulega ofunnin og söngkonan er ekkert að leyna því en það er allt í lagi því þannig eiga poppplötur frá Kylie litlu að vera.

Matthías Árni Ingimarsson

Höf.: Matthías Árni Ingimarsson