Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur Hafþórsson er þrefaldur Íslandsmeistari í golfi og verður nú með í fyrsta skipti í þrjú ár. Hann þekkir ágætlega til í Kiðjaberginu. „Ég er með bústað í nágrenninu ásamt tengdaforeldrum mínum.

Birgir Leifur Hafþórsson er þrefaldur Íslandsmeistari í golfi og verður nú með í fyrsta skipti í þrjú ár. Hann þekkir ágætlega til í Kiðjaberginu. „Ég er með bústað í nágrenninu ásamt tengdaforeldrum mínum. Ég hefði viljað spila völlinn oftar í sumar og síðustu ár. Ég spilaði hérna í maí en hef síðan þá farið nokkra 9 holu hringi. Ég kannast svo sem vel við umhverfið hérna en ég get ekki kallað mig heimamann,“ sagði Birgir í spjalli við Morgunblaðið í gær og sagðist vera búinn að setja saman leikáætlun.

„Ég er búinn að sauma eitthvað saman í huganum en svo sér maður eftir fyrsta daginn hvernig það kemur út. Ég hef aldrei keppt í móti hérna og renni blint í sjóinn hvað það varðar. Ætli maður þurfi ekki að „grinda“ í gegnum þetta fyrstu dagana. Sjá hvernig skorin verða og átta sig á hvar maður getur sótt. Ég er aðeins með þetta í kollinum og vonandi mun maður ekki þurfa að endurskoða það,“ sagði Birgir sem er að jafna sig eftir brjósklos. Birgir tók þátt í Meistaramóti GKG á dögunum og sigraði en það var hans fyrsta fjögurra daga mót í tæpt ár. Birgir segir bakið hafa haldið.

„Það hélt bara mjög fínt. Ég fann fyrir þreytu en ég og læknirinn erum með þetta í góðum farvegi. Við þekkjum nákvæmlega einkennin. Þegar þau láta á sér kræla vitum við hvað við þurfum að gera til að fá bakið aftur í sama horf. Honum og sjúkraþjálfaranum hefur tekist að halda mér góðum og verkjalausum. Við erum líka að styrkja bakið á fullu og það er það sem telur, auk þess sem við erum að læra mikið inn á þetta núna. Þetta ætti ekki að há mér í Íslandsmótinu. Ég hef ekki áhyggjur af því. Ef það gerist hins vegar þá stoppa ég,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson. kris@mbl.is