Langþráð stund rann upp þegar Herjólfur sigldi inn í Landeyjahöfn

Íslendingar eru stoltir yfir landi sínu, fegurð þess og mikilleik. En það og náttúra þess er þó ekki lamb að leika sér við, þegar fýkur í þau. Þá er virðing og varúð einu kostirnir sem landsmenn eiga. Fyrstu þúsund ár manna í landinu var það tekið eins og það var og menn lutu lögmálum þess. En 11. og 12. öld byggðar urðu það sem maðurinn kallar framfaraöld. Íslenskur ráðamaður með frjótt ímyndunarafl og ríkan framfaravilja sá hluta þessarar þróunar fyrir. En hann var jafnframt viss um að sjálfstjórn og sjálfstæði væri forsenda þeirra framfara sem birtust í draumum hans:

„Sje jeg í anda knör og vagna knúða

krafti, sem vannst úr fossa þinna skrúða,

stritandi vjelar, starfsmenn glaða og prúða,

stjórnfrjálsa þjóð, með verslun eigin búða.“

Ísland er nærri því að vera helmingur af Bretlandi að flatarmáli en íbúar þar eru nærri 200 sinnum fleiri en á Íslandi. Það kostar mikið fé, ekki síst deilt á hvert landsbarn, að byggja upp innviði þessa lands. En þar hafa slík stórvirki verið unnin á rúmri öld að jafnvel ímyndunarafl eldhugans og baráttuskáldsins hefði ekki náð utan um það. Vegir, brýr, virkjanir, hafnir, flugvellir, mannvirki, býli, frystihús, jafnt föst sem fljótandi, floti og flugvélar. Og þetta eru aðeins hin sýnilegu merki innviða landsins. Hinir, menntun, þjónusta og öryggiskerfi, svo aðeins örfá dæmi séu nefnd, skipta ekki minna máli. Vegna alls þessa sem unnist hefur getum við mætt áföllum og unnið okkur út úr þeim á undrahraða, en þó með því skilyrði að við förum með forsvar eigin mála og eigum þá kosti sem þarf í okkar fórum og undir okkar stjórn. Stjórnfrjáls þjóð er forsenda árangursins.

Einn glæsiáfanginn enn náðist nýlega. Ferjuhöfn í Suðurlands-hafnleysinu. Við þurftum ekki að horfa til þess í andanum til þess að mega sjá „knör“ sigla drekkhlaðinn fólki með gleðibragði yfir góðum sigri. Árni Johnsen alþingismaður var hugmyndasmiðurinn og margir stóðu með honum á þingi. Og að verkinu sjálfu hafa miklu fleiri komið með myndarskap og þjóðin hefur borgað brúsann án þess að mögla. Væntanlega vegna þess að hún hafði góðan hug til verksins.

„Starfið er margt, en eitt er bræðrabandið,

boðorðið, hvar sem þjer í fylking standið,

hvernig sem stríðið þá og þá er blandið,

það er: Að elska, byggja og treysta á landið.

Þá mun sá Guð, sem veitti frægð til forna,

fósturjörð vora reisa endurborna.

Þá munu bætast harmasár þess horfna,

hugsjónir rætast. Þá mun aftur morgna.“