Undirritaður hefur verið í viðskiptum við Landsbankann síðan hann fékk nokkrar gamlar krónur í skírnargjöf árið 1975. Viðskiptasagan spannar því orðið 35 ár og nokkrum mánuðum betur. Á þessum tíma hef ég aldrei stofnað til nokkurra skulda ef frá er talin nokkurra mánaða notkun á yfirdrætti þegar ég var 18 ára gamall og hafði í nógu að snúast við að lifa lífinu og eyddi stundum örlítið um efni fram eins og gengur. Síðan þá hef ég verið í plús og alltaf staðið við allar mínar skuldbindingar, ekki keypt fasteign eða fengið lánað fyrir bílakaupum.
Árið 2007 lenti ég í slæmu bílslysi og hef mátt nota hjólastól síðan. Þegar ég dvel í Reykjavík notast ég við Landsbankann í Austurstræti enda styst frá þeim stað sem ég dvel á auk þess sem ég sæki mikið í miðbæinn og vegna þess að það er P-merkt bílastæði beint fyrir utan bankann. Það sem gerir mér hins vegar gramt í geði er sú staðreynd að ég þarf að hringja í afgreiðslu bankans og fá öryggisverði til að hleypa mér inn Hafnarstrætis-megin þar sem ekki er aðgengi fyrir fólk í hjólastól um aðaldyrnar. Ég þarf því að fara inn um starfsmannainngang sem er læstur almenningi og þarf öryggisvörður að koma og hleypa mér inn eftir að ég hefi mátt bíða mislengi á línunni eftir sambandi við afgreiðslu.
Þegar inn er komið tekur við ferðalag í gegnum eldhús og kaffistofuafdrep starfsmanna og get ég upplýst að þar á bæ eru menn afar hrifnir af prins póló og flatbrauði með hangikjöti. Því næst fer ég í gegnum skrifstofur á fyrirtækjasviði en þarf svo að bíða eftir því að hinir ágætu öryggisverðir setji upp sliskjur svo ég komist niður tvær tröppur og niður á aðalgólfið þar sem þjónustufulltrúar og gjaldkerar eru staðsettir. Eftir þetta ferðalag er maður orðinn talsvert þyrstur og því gott að geta gengið að vatnsvélinni vísri eða í mínu tilfelli rennt sér að henni. Það sem situr þó eftir er tilfinningin um að vera annars flokks kúnni og það þrátt fyrir flekklausa viðskiptasögu við bankann og þá staðreynd að hafa aldrei látið glepjast af gylliboðum annarra banka um að koma í viðskipti.
Eftir að hafa skrifað bankanum erindi um aðgengismál um daginn kom hið klassíska og þægilega svar um að ekkert væri hægt að gera þar sem húsið væri friðað að utan og hendur þeirra því bundnar hvað aðalinngang hússins varðaði. Á þessu svari er hins vegar einn hængur og hann er sá að það er annar inngangur í bankann ætlaður almenningi Hafnarstrætismegin. Sá hluti hússins er varla friðaður enda um mun yngri byggingu að ræða og minnsta mál að hleypa okkur fatlaða pakkinu þar inn án þess að ljókka ásýnd höfuðstöðvanna með einfaldri lyftu við aðalinnganginn.
Um daginn þurfti ég að fara í bankann til að sinna mínum málum. Það skal tekið fram að ekki var um að ræða viðskipti nema upp á örfá hundruð þúsunda og varla að það sæist á yfirliti bankans þann daginn en ég varð engu að síður að fara og er ég hafði lagt í P-merkta stæðið fyrir framan bankann tók ég upp símann og reyndi að ná sambandi við afgreiðslu höfuðstöðvanna. Mild bassarödd Kristjáns Franklíns Magnússonar leikara bað mig vinsamlegast um að hinkra í örfáar mínútur á meðan verið væri að koma á sambandi. Þessar örfáu mínútur urðu að 20 mínútum og ekkert bólaði á svari. Ég setti saman stólinn á meðan og gerði mig líklegan til að koma mér út úr bílnum en ekkert bólaði á svari þrátt fyrir fyrirheit Kristjáns um að þetta væri rétt að bresta á. Ég fór nú að ókyrrast enda leið dagurinn og ég hafði, þrátt fyrir að vera annars flokks viðskiptavinur, nóg annað að gera en að hlusta á Garden Party með Mezzoforte og fagra bassarödd Kristjáns í boði Landsbankans.
Þetta skynjuðu Gugga og Jói, landsfrægt fólk götunnar sem urðu þjóðþekktir einstaklingar þegar Kompásþáttur Jóhannesar Kristjánssonar blaðamanns fjallaði um þau og þeirra sigra og ósigra en þau hafði nú drifið þarna að og buðu þau mér vinsamlegast aðstoð sína.
Ég þáði hana með þökkum og bað þau vinsamlegast um að sækja fyrir mig öryggisvörð Landsbankans því mig vantaði að komast inn í höfuðstöðvarnar fínu.
Það stóð ekki á þeim og rak Gugga hann Jóa sinn inn í bankann til að ná í blessaðan öryggisvörðinn sem hann gerði í snatri og greinilegt hver var í pilsinu í þessu hjónabandi. Á meðan ræddum við Gugga málin og eftir að ég hafði sagt henni lítillega frá mínu slysi gaf hún mér ágrip af sinni sögu fram til dagsins í dag. Fljótlega kom Jói með sveittan og óstyrkan öryggisvörð Landsbankans sem vissi ekkert hvaðan á hann stóð veðrið en hafði þó látið sannfærast um að fyrir utan væri annars flokks viðskiptavinur bankans sem gjarnan vildi komast inn til að ganga frá lítilfjörlegum viðskiptum sínum þann daginn. Með þetta kvöddu Gugga og Jói, þetta ógæfufólk götunnar sem hafði gert góðverk dagsins og kvöddu þau mig með orðunum: „Við erum sko ekkert svo slæmt fólk.“
Með þessi orð þeirra í kollinum rúllaði ég mér hugsi eftir gangstéttinni og á bak við hús að inngangi annars flokks viðskiptavina Landsbankans. Á kaffistofu starfsmanna hafði gleymst að panta flatbrauðið þennan daginn.
Höfundur er frumkvöðull og öryrki.