Gunnþórunn Jónsdóttir
gunnthorunn@mbl.is
Kátt var á hjalla hjá Hvammshúsinu í gær en þar var haldin Sumarhátíð Vinnuskólans í Kópavogi í hádeginu. Á hátíðinni var þétt og fjölbreytt dagskrá og nokkrir listamenn sáu um að skemmta og syngja fyrir fjöldann. Pylsur voru grillaðar fyrir gesti og allir fengu ís í eftirrétt. Mikil veðurblíða var og lágu krakkarnir ýmist í sólbaði í grasinu eða spiluðu fótbolta.
„Við lögðum upp með að hafa sem mest af þeim atriðum sem koma fram úr því starfi sem hefur verið unnið hjá Kópavogsbæ í sumar,“ segir Karl Eiríksson, starfsmaður Kópavogs og einn af skipuleggjendum hátíðarinnar. Nokkrir strákar frá Götuleikhúsinu sem stunda „parkour/free run“ íþróttina sýndu listir sínar. „Götuleikhúsið hefur verið starfandi hér í sumar og komið fram á leikskólum og elliheimilum við góðar undirtektir,“ segir Karl.
Einnig var Ari Eldjárn með uppistand og Ingó úr Veðurguðunum og Friðrik Dór stigu á svið og sungu nokkur lög fyrir gesti, einnig hljómsveitin Járnskóflan á vegum starfsmanna VSK og hljómsveitin Tvítóla frá skapandi sumarstörfum í Kópavogi. „Skapandi sumarstörf virka þannig að þeir sem hafa áhuga og eru með góðar hugmyndir sækja um í byrjun sumars og gera grein fyrir sínum hugmyndum. Þeir sem síðan eru ráðnir til starfa framkvæma sínar hugmyndir. Gengið er út frá því að hugmyndirnar hafi sem mestan samfélagslegan ávinning fyrir Kópavogsbæ.“
Hjá Vinnuskóla Kópavogs starfa um 915 unglingar við hin ýmsu störf. Karl segir að umhirða bæjarins skipi þar stærstan sess. Einnig starfa unglingar við uppgræðslu á skógræktarsvæði bæjarins, á leikskólum, róluvöllum og leikjanámskeiðum.