Árangurslaust Jón Ragnar Jónsson og félagar í FH höfðu ekki erindi sem erfiði á Kaplakrikavelli í gærkvöldi og töpuðu fyrir BATE frá Borisov.
Árangurslaust Jón Ragnar Jónsson og félagar í FH höfðu ekki erindi sem erfiði á Kaplakrikavelli í gærkvöldi og töpuðu fyrir BATE frá Borisov. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Enn eitt árið er þátttöku FH í Evrópukeppni í knattspyrnu lokið snemma en Íslandsmeistararnir töpuðu í gærkvöldi seinni leiknum við BATE Borisov frá Hvíta-Rússlandi, 1:0, á Kaplakrikavelli og því samanlagt 6:1 í 2.

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Enn eitt árið er þátttöku FH í Evrópukeppni í knattspyrnu lokið snemma en Íslandsmeistararnir töpuðu í gærkvöldi seinni leiknum við BATE Borisov frá Hvíta-Rússlandi, 1:0, á Kaplakrikavelli og því samanlagt 6:1 í 2.umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Enn eitt árið segi ég, því þrátt fyrir yfirburði FH-inga á íslenska knattspyrnusviðinu hafa þeir nú á þremur af síðustu sex leiktíðum fallið úr leik í fyrstu rimmu sinni í Evrópukeppni. Í hin þrjú skiptin hafa þeir komist fram hjá einum andstæðingi en svo fallið úr leik. Síðustu tvö skipti hafa skellirnir verið ansi stórir því í fyrra tapaði FH 6:0 samanlagt fyrir Aktobe frá Kasakstan.

FH hefur síðustu ár verið eitt skemmtilegasta lið deildarinnar á að horfa, spilað léttleikandi knattspyrnu og sóknarbolta. Það virðist engan veginn virka í Evrópukeppnum gegn atvinnumannaliðum sem eru mun lengra komin í þessum fræðum. Kannski lið með blóðþyrsta baráttuhunda, sem gæfu lítið fyrir fallegan fótbolta, ætti betri von en um það er erfitt að fullyrða.

Grimmdin og baráttan hefði alla vega mátt vera mun meiri í FH-ingum í gær. Helst var að fyrirliðinn Matthías Vilhjálmsson og Pétur Viðarsson færu af fullri hörku í einvígi en annars var dauft yfir mannskapnum svo ekki sé meira sagt.

BATE-menn, sem eru greinilega með mjög öflugt lið, voru að sama skapi mjög rólegir. Leikurinn er eiginlega einn sá leiðinlegasti sem ég hef séð í háa herrans tíð. Hugurinn reikaði aftur til áranna þegar ég var einn fremsti borðtennisspilari Eyjafjalla og nágrennis. Þá var hægt að vinna leiki með því að komast í 7:0, og eitthvað í líkingu við þá reglu mætti svo sannarlega taka upp í Evrópukeppnum til að koma í veg fyrir leiki eins og þann sem spilaður var í gær. Fjögurra marka sigur í fyrri leik gæti til dæmis tryggt liði sigur í einvíginu og áframhald í keppninni.

Menn vilja þó eflaust halda því fram að leikurinn í gær sé hvað sem öllu líður góð reynsla fyrir leikmenn FH. Ég veit ekki með það. Áhugaleysið virtist alls ráðandi svo stóran hluta leiksins að ég efast um að menn hafi fengið nokkuð út úr honum. Þó verður að geta þess að FH-ingar sóttu nokkuð undir lok leiksins og voru hreinlega óheppnir að ná ekki að jafna metin. Ólafur Páll Snorrason komst næst því þegar hann stal boltanum af markverði BATE en sá síðarnefndi braut af sér og fékk aðeins gult spjald fyrir.

FH – BATE Borisov 0:1

Kaplakrikavöllur, forkeppni Meistaradeildar Evrópu, 2. umferð, seinni leikur, miðvikudag 21. júlí 2010.

Skilyrði : Nánast logn og léttskýjað. Völlurinn ágætur.

Skot : FH 6 (1) – BATE 13 (6).

Horn : FH 2 – BATE 3.

Lið FH : (4-5-1) Mark : Gunnleifur Gunnleifsson. Vörn : Jón Ragnar Jónsson, Hafþór Þrastarson, Tommy Nielsen (Freyr Bjarnason 78.), Hjörtur Logi Valgarðsson (Bjarki Gunnlaugsson 43.). Miðja : Atli Viðar Björnsson (Atli Guðnason 64.), Pétur Viðarsson, Björn Daníel Sverrisson, Matthías Vilhjálmsson, Ólafur Páll Snorrason. Sókn : Torger Motland.

Lið BATE : (4-3-3) Mark : Sergei Veremko. Vörn : Dmitri Baga, Igor Shitov, Sergei Sosnovski, Maksim Bardachou. Miðja : Dmitri Likhtarovich, Edhar Aliakhnovich (Aleksandr Pavlov 59.), Aleksandr Volodko (Aliaksandr Jurevich 77.). Sókn : Vitali Rodionov (Oleg Patotskij 71.), Maksim Skavysh, Renan Bressan.

Dómari : Hannes Kaasik, Eistlandi.

Áhorfendur : Um 500.

Þetta gerðist í Kaplakrika

0:1 15. Vitali Rodionov fékk boltann nærri vítateigslínunni, aðeins vinstra megin við vítateigsbogann, og átti flott skot sem endaði í markinu þó að Gunnleifur Gunnleifsson næði að snerta boltann.

Gul spjöld:

Pétur (FH) 75. (brot), Bjarki (FH) 82. (brot), Patotskij (BATE) 84. (töf), Veremko (BATE) 90. (brot), Jón Ragnar (FH) 90. (töf).

Rauð spjöld:

Enginn.

* Hjörtur Logi Valgarðsson fór meiddur af leikvelli undir lok fyrri hálfleiksins og kom Bjarki Gunnlaugsson í hans stað. Hjörtur sagði í samtali við Morgunblaðið meiðslin ekki alvarleg og að hann gæti vonandi leikið í grannaslagnum við Hauka á sunnudaginn.

* Pavel Nekhaichik skoraði þrennu fyrir BATE í fyrri leik liðanna í Hvíta-Rússlandi. Hann var hins vegar á bekknum allan leikinn í gær en fimm breytingar voru á byrjunarliði BATE frá fyrri leiknum.

Þarf meiri atvinnumennsku til að ná langt

„Það er lítið hægt að bera þessa tvo leiki saman því BATE vann fyrri leikinn 5:1 en við reyndum að spila þéttan varnarleik í fyrri hálfleiknum. Við settum þá svo undir pressu í seinni hálfleiknum og það hefði auðvitað verið gaman að ná að kreista fram jafntefli,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir tapið gegn BATE í gær. Hann sá ekki eftir að hafa reynt að pressa á BATE-liðið fyrr í leiknum.

„Það hefði verið óðs manns æði. Það er alveg klárt,“ sagði Heimir sem talaði ekki undir rós frekar en venjulega:

„Þetta lið er bara betra en FH á allan hátt. Það er ekkert flókið. Ef íslensk lið ætla sér að komast langt í Evrópukeppni þá þarf að vera hérna hálfatvinnumennska eða full atvinnumennska. Það er nokkuð klárt að mínu mati. En auðvitað snýst þetta líka um heppni því að BATE er erfiðasta liðið sem við gátum fengið. Forráðamenn FCK, sem mætir BATE í næstu umferð, voru að tala um að þeir hefðu verið óheppnir sem sýnir hvað BATE er sterkt lið.“ sindris@mbl.is