Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra segir að í frekari niðurskurði í heilbrigðisþjónustu þurfi að horfa til endurskipulagningar kerfisins í heild sinni. „Innlagnargjöld verða ekki tekin upp,“ segir ráðherra.
Í nýrri starfsemisskýrslu Landspítalans fyrir fyrri helming ársins má sjá að mjög hefur dregið úr komum á legudeildir.
„Víða um heim er verið að efla göngudeildir, heimaþjónustu og dagdeildir og minnka legur og innlagnir. Að sumu leyti flýtir þessi niðurskurður eitthvað þessari þróun en hann er samt sem áður ekki tilefnið. Starfsfólk Landspítalans hefur sýnt mikinn metnað og tryggt að öryggi sjúklinga sé óskert þrátt fyrir þennan mikla fjárhagslega niðurskurð,“ segir Álfheiður.
Hún segir að áætluðum 5% niðurskurði í heilbrigðiskerfinu hafi ekki enn verið deilt niður. „Við þurfum að endurskipuleggja í þjónustunni til að ná þessum niðurskurði. Það er ekki í boði að skera niður flatt.“
SÍÐDEGISLOKANIR HEILSUGÆSLUNNAR