Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Búið er að veiða um 71,6% af humarkvótanum, sem er 2.200 tonn upp úr sjó. Rammi hf. og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum eru með um helming kvótans og hefur gengið vel hjá Ramma en VSV á meira eftir þar sem fyrirtækið geymdi 130 tonn frá síðasta ári.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að veiðin gangi vel þessa dagana en sömu sögu hafi ekki verið að segja í júní. Kvóti félagsins er um 560 tonn fyrir utan fyrrnefnd 130 tonn og sjá fjórir bátar um veiðina.
Markaðurinn er betri en í fyrra og verðið á stóra humrinum hefur hækkað, að sögn Sigurgeirs. Hins vegar hefur veiðin ekki gengið eins vel og undanfarin ár og því má gera ráð fyrir að menn þurfi að hafa sig alla við til þess að ná kvótanum.
Sigurgeir segir að ástand humarstofnsins sé mjög gott. Humarinn sé stór og fallegur og meðalstærðin hafi farið stækkandi sem sé vísbending um það að stofninn sé að stækka.
Kvóti Ramma er um 500 tonn og er hann unninn í Þorlákshöfn, en veiðar og vinnsla liggja niðri fram yfir verslunarmannahelgi. Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma, segir að vel hafi gengið að veiða humarinn, vinna hann og selja, rétt eins og undanfarin ár. Fyrirtækið gerir út Jón á Hofi og Fróða til humarveiða og er auk þess með lítinn viðskiptabát í stuttan tíma. Eftir er að veiða 24 tonn af hölum eða um 78 tonn upp úr sjó.
Heill humar er að mestu leyti seldur til Spánar og Ítalíu, en humarhalarnir til Kanada og Bandaríkjanna.