Skotveiðimenn eru einn stærsti hópur útivistarfólks á Íslandi. Árlega fara um það bil tíu þúsund skotveiðimenn til veiða í náttúru landsins. Við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var því heitið að veiðar yrðu ekki bannaðar né heldur takmarkaðar innan þjóðgarðsins. Mikil og löng hefð er fyrir þeim á svæðinu, sér í lagi á austursvæðinu þar sem heiðagæs, hreindýr og rjúpa hafa verið nýtt um aldir í sátt við umhverfið og náttúru.
Það eru mikil vonbrigði fyrir skotveiðimenn, sem eru upp til hópa náttúruunnendur og umhverfisverndarsinnar, að sú tillaga sem liggur fyrir um stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs skuli fela í sér bönn og takmarkanir á veiðum og í raun útilokun á stórum veiðisvæðum frá veiðum innan þjóðgarðsins.
Við viljum því koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og umhverfisráðherra:
1. Mikið er talað um aðkomu hagsmunaaðila að gerð þessarar áætlunar en það er okkar mat að hagsmunaaðilar á borð við Skotvís, Skaust, Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum og Skotreyn hafi ekki fengið að koma að undirbúningi og vinnslu tillögunnar með eðlilegum hætti. Í Vatnajökulsþjóðgarði eru stór veiðisvæði hreindýra, rjúpna og heiðagæsa og skal því haldið hér til haga að Umhverfisstofnun er einn stærsti veiðileyfasali landsins þegar kemur að sölu leyfa til hreindýraveiða.
2. Eitt af meginmarkmiðum með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var að styrkja byggð og atvinnustarfsemi (sjá kafla 2.1). Skotveiðimenn kaupa kost, gistingu og aðra þjónustu af heimamönnum. Hreindýraveiðar hefjast 15. júlí og lýkur 20. september. Gæsaveiðar hefjast 20. ágúst og rjúpnaveiði í lok október. Umferð veiðimanna er því utan hefðbundins ferðamannatíma og öll takmörkun á veiðum innan þjóðgarðsins mun að öllum líkindum draga úr komu veiðimanna, tekjum heimamanna og þar með mun eitt af markmiðum þjóðgarðsins um að styrkja byggð og atvinnustarfsemi ekki nást.
3. Engin rök hníga að því að ekki skuli leyfa gæsaveiðar á austursvæði þjóðgarðsins fyrr en 1. september, hvorki vistfræðileg né önnur. Heiðagæsastofninn er sterkasti gæsastofninn á Íslandi og hefur varpstofninn þrefaldast að stærð á síðustu þrjátíu árum. Heiðagæs er bæði dyntóttur og erfiður veiðifugl. Hún fer snemma af landi brott og hefur iðulega sést til heiðagæsa á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum við upphaf veiðitíma, þ.e. upp úr miðjum ágúst. Tilmæli helstu gæsasérfræðinga okkar Íslendinga hafa verið að hvetja til aukinna veiða á heiðagæs. Takmörkun á veiðitíma til 1. september takmarkar veiðar á heiðagæs á svæðinu þar sem stór hluti stofnsins mun hafa yfirgefið svæðið fyrir 1. september. Þau rök sem notuð eru í verndaráætluninni, að um sé að ræða fellistaði gæsa, standast heldur ekki þar sem heiðagæsir eru komnar úr sárum og orðnar fleygar fyrir 20. ágúst. Sé Austursvæðinu lokað fyrir heiðagæsaveiði fram að 1. september mun ágangur á öðrum svæðum umhverfis það aukast. Það getur leitt til aukinnar umferðar veiðimanna á þeim svæðum, aukins álags á land og veiðistofna viðkomandi svæða. Einnig er stór hluti heiðagæsa farinn af landi brott um mánaðamótin ágúst/september og því í raun verið að takmarka að verulegu leyti alla heiðagæsaveiði á svæðinu.
4. Bann á hreindýraveiðum á Austursvæðinu í kringum Snæfell til 15. ágúst mun auka álagið enn frekar í lok veiðitíma á hreindýrum á svæðinu með aukinni slysahættu og átroðningi lands vegna fjölda veiðimanna á svæðinu.
5. Hvers vegna á að meina sumum hópum útivistarmanna aðgang að þjóðgarðinum í þeim tilgangi að auka umferð annarra útivistarhópa? Fram að þessu hefur ekki komið til árekstra á milli ólíkra útivistarhópa þar sem veiðitími er að stærstum hluta utan hefðbundins ferðamannatíma t.d. gönguhópa. Rétt er að benda á að skotveiðimenn skilja eftir sig um tvo milljarða á ári í kaupum á leyfum og þjónustu á Íslandi.
Við hvetjum því stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og umhverfisráðherra til að taka tillit til þeirra athugasemda sem hafa borist vegna ofangreindra þátta í fyrirhugaðri stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Ennfremur er óskað eftir því að landssamtök skotveiðimanna sem og annarra skipulagðra útivistarfélaga séu höfð milliliðalaust með í ráðum þegar fjallað er um mál af þessum toga.
Höfundar eru verkfræðingar og veiðimenn.