Andstaða við ESB-aðild fer vaxandi með þjóðinni og þeirri kröfu er nú mjög á lofti haldið að draga eigi umsókn Íslands að ESB til baka. En af hverju? Af hverju er ekki óhætt að láta reyna á umsóknarferlið svo þjóðin geti fellt aðildarsamning í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu? Enn og aftur spyrja margir, af hverju má ekki láta á það reyna hvað er í boði?
Er ekki eðlilegast að samningur liggi fyrir og svo hefjist hið lýðræðislega ferli aðildarsinna og fullveldissinna þar sem tekist yrði á um hylli almennings. Rætt hefur verið um að frá fullbúnum samningi líði að minnsta kosti sex mánuðir fram að kosningum og á þeim tíma geta báðir aðilar kynnt málstað sinn. Heimssýn, sem er þverpólitísk samtök allra sem eru á móti aðild væru þar annars vegar. Samtökin hafa ef vel gengur yfir 8 milljónum að ráða á ári. Kannski fá þau svo aukalega nokkur hundruð þúsund af fjárlögum.
Hins vegar væru upplýsingaskrifstofur ESB á Íslandi. Sambandið hefur þegar úthlutað sjálfu sér fjóra milljarða til verkefnisins að flytja íslensku þjóðinni boðskap sinn og sveigja hana til hlýðni. Þau fara reyndar fram á að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur leggi sér til annað eins í sama verkefni, samtals verða þar komnir 8 milljarðar.
Yrði þetta ekki fullkomnlega jafn leikur og sanngjarn í þágu lýðræðisins? Ef svo ólíklega færi að 8 milljarðar ESB duga ekki til mola niður sveitalega andstöðu Íslendinga má alltaf kjósa aftur!
Höfundur er bóksali