Sigurður Þorgeirsson fæddist á Hafnargötu 71 í Keflavík 30. janúar 1946. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þriðjudaginn 13. júlí 2010.

Foreldrar hans voru Þorgeir Óskar Karlsson, f. 5.3. 1917, d. 26.10. 1995, og Helga Ingibjörg Magnúsdóttir, f. 22.10. 1918, d. 23.5. 1995. Systkini Sigurðar sammæðra eru: 1) Gunnar Karl, f. 25.3. 1940, d. 8.3. 2001. Hann á 4 börn. 2) Vilberg Kjartan, f. 17.6. 1944, kvæntur Guðrúnu Björk Jóhannesdóttur, f. 4.11. 1946, þau eiga þrjár dætur og átti Vilberg einn son áður. 3) Magnea Þórsdóttir, f. 7.7. 1956, gift Jóni Kristni Guðmundssyni, þau eiga tvö börn. 4) Fríða, f. 11.11. 1958, d. 9.2. 1966. Systkini Sigurðar samfeðra eru: 5) Margeir, f. 24.9. 1955, kvæntur Ástríði Lilju Guðjónsdóttur, f. 15.11. 1955, þau eiga fjögur börn. 6) Katrín Ósk, f. 20.11. 1957, gift Guðmundi Gesti Þórissyni, f. 3.8. 1960, þau eiga tvo syni. Katrín átti einn son áður. 7) Ingibergur, f. 2.3. 1963, maki Málfríður Baldvinsdóttir, f. 23.4. 1966, þau eiga tvö börn.

Sigurður kvæntist Guðrúnu Þóru Sigurðardóttur, f. 1.6.1947. Þau slitu samvistum. Áttu þau eina dóttur: 1) Ernu Sigríði, f. 30.8. 1963. Dætur hennar eru Guðrún Hrefna, f. 8.2. 1989, og Erna María, f. 18.9. 1998. Sigurður eignaðist tvær dætur með Eygló Gísladóttur, f. 1.11. 1949: 2) Lilja Bergmann, f. 3.10. 1969, gift Friðriki Sverrissyni, f. 25.4. 1968, börn þeirra eru Victor, f. 21.9. 1997, Dagur, f. 20.9. 2004, og stúlka óskírð, f. 18.6. 2010. 3) Kolbrún Dóra, f. 16.7. 1974, gift Þór Sigurðssyni, f. 10.2. 1968, börn þeirra eru Kristinn, f. 10.12. 2003, og Kamilla, f. 1.9. 2008. Hann eignaðist einn son með Sæunni Kristinsdóttur, f. 11.6. 1953: 4) Garðar, f. 22.9. 1971, kvæntur Ástu Halldóru Böðvarsdóttur, f. 20.11. 1976, börn þeirra eru Guðjón Emil, f. 2.9. 1996, Halla Emilía, f. 9.5. 2000, og Gyða Eir, f. 24.9. 2004. Árið 1982 kvæntist hann Rut Olsen, f. 30.9. 1954, og áttu þau saman eina dóttur: 5) Jóna Kristjana, f. 18.12. 1985, unnusti hennar er Leif Erik Williams, f. 9.2. 1981. Rut átti eina dóttur fyrir: 6) Gunnlaug F. Olsen, f. 19.8.74, maki hennar er Sturla Ólafsson. Börn hennar eru Kristján Helgi, f. 3.1. 1992, Emelía Rut, f. 17.3. 1998, og Ásthildur Eva, f. 29.8. 1974. Rut og Sigurður slitu samvistum árið 1996. Sigurður starfaði lengst af sem sjómaður og leigubílstjóri.

Útför Sigurðar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 22. júlí 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku pabbi minn.

Mér þykir það svo sárt að þú skulir vera búinn að kveðja okkur og það langt fyrir aldur fram. Mér þykir það svo sárt að börnin mín fái aldrei að vera í örmum þínum. Mér þykir það svo sárt að fá ekki að hafa þig í mínu lífi lengur, en allar þær stundir sem við áttum saman voru dýrmætar og ógleymanlegar.

Þegar ég var lítil stelpa og þú komst heim af sjónum seint að kveldi og þurftir að fara aftur eftir nokkra tíma þá gafstu þér alltaf stund til að lesa fyrir mig þangað til ég sofnaði og ef ég sofnaði ekki við lesturinn þá straukstu á mér ennið þar til ég var sofnuð. Þetta hef ég alltaf munað og mun aldrei gleyma. Ég hef alltaf verið ákveðin í því að finna mér mann sem mun vera jafn æðislegur pabbi og þú varst mér og eins og þú veist þá er hann fundinn.

Þú varst alltaf svo góður við mig og vildir allt fyrir mig gera, fyrir það er ég óendanlega þakklát. Ég vona að ég hafi gert allt sem ég gat gert fyrir þig, sérstaklega á meðan þú varst veikur.

Ég vildi óska þess að síðustu árin þín hefðu verið betri. Vildi að þú hefðir ekki þurft að finna svona til en við fáum víst engu um það ráðið.

Þú varst besti pabbi í heimi og vinur því við gátum alltaf talað saman. Sögðum hvort öðru leyndarmál sem enginn annar veit. Eyddum oft heilu dögunum saman í allt og ekki neitt.

Ég óska þess svo heitt að við hefðum getað átt fleiri stundir saman. En ég veit að þú munt alltaf fylgja mér og vernda mig af himnum.

Always look on the bright side of life.

Ég elska þig, pabbi minn.

Þitt litla hjarta,

Jóna.

Hinsta kveðjustund er runnin upp. Í dag kveð ég elsku pabba sem lést eftir harða baráttu við krabbamein. Fráfall hans er mér þungt.

Pabbi kom inn í líf mitt þegar ég er 5-6 ára gömul þegar hann og móðir mín felldu hugi saman. Margs er að minnast.

Ég eignaðist mitt fyrsta barn mjög ung. Það voru ófáar næturnar sem ég þurfti að ganga um gólf með drenginn grátandi. Margoft gaf pabbi sér tíma til að leysa mig af þó svo að hann væri að fara á sjóinn eftir stutta stund, þreyttur og ósofinn. Eins gaf hann sér alltaf tíma til að lesa fyrir Jónu systur áður en hún fór að sofa, alveg sama hversu þreyttur hann var og hversu stuttan svefn hann fengi áður en hann færi aftur á sjóinn. Þetta er mér ofarlega í huga og þetta kunni ég vel að meta.

Ég fann aldrei fyrir því að ég væri fósturdóttir hans. Hann kom fram við mig eins og sína eigin. Það breyttist ekki þó svo að leiðir mömmu og pabba hafi skilið. Samband okkar pabba styrktist meir og meir með árunum.

Pabbi hafði mikið dálæti á barnabörnunum sínum. Hann gat endalaust setið við að spila við þau, lesa fyrir þau eða pússla. Missir þeirra er mikill.

Pabbi var mikill dugnaðarforkur og hlífði sér hvergi þegar kom að vinnu. Snyrtimennska var honum í blóð borin enda fékk hann á sjómannsárum sínum viðurnefnið Siggi sjæní sem átti svo vel við hann.

Oftar en ekki var pabbi farinn að skúra og laga til hjá mér þegar hann kom í heimsókn. Held að það hafi aldrei liðið það skipti sem hann tók ekki upp tuskuna eða sópinn.

Það fór mikið fyrir pabba. Það fór ekki framhjá neinum þegar hann mætti á svæðið. Var stríðinn og hávær. Hann vildi allt fyrir alla gera og mátti ekkert aumt sjá.

Ég hugsa hlýtt til Villa föðurbróður sem var ekki aðeins að missa elskulegan bróður heldur líka góðan vin.

Ég hugsa líka til elsku Jónu systur sem er búin að standa sig ótrúlega vel í veikindum pabba og hugsa um hann af svo mikilli umhyggju að það er aðdáunarvert. Hún var kletturinn hans pabba í veikindunum og ég veit að hann var henni mikið þakklátur fyrir það.

Ég hélt að við hefðum meiri tíma, það átti eftir að segja svo margt. Ég hugga mig við það að hann þurfti ekki að kveljast lengur.

Ég er þakklát fyrir alla þá ást og umhyggju sem pabbi veitti mér og mínum. Þakklát fyrir þær stundir sem við áttum saman. Þakklát fyrir að hafa verið partur af lífi hans.

Ég er á langferð um lífsins haf

og löngum breytinga kenni.

Mér stefnu frelsarinn góður gaf.

Ég glaður fer eftir henni.

Mig ber að dýrðlegum, ljósum löndum.

Þar lífsins tré gróa' á fögrum ströndum.

Við sumaryl og sólardýrð.

Lát akker falla! Ég er í höfn.

Ég er með frelsara mínum.

Far vel, þú æðandi dimma dröfn!

Vor Drottinn bregst eigi sínum.

Á meðan akker í æginn falla,

ég alla vinina heyri kalla,

sem fyrri urðu hingað heim.

(Þýð.Vald. V. Snævarr.)

Ég kveð góðan pabba með miklum söknuði í hjarta.

Ég veit að á móti þér tóku þeir sem þú unnir og saknaðir.

Þar til við hittumst aftur,

Guð geymi þig.

Þín dóttir,

Gunnlaug.

Við kveðjum afa með sorg í hjarta en þakklát fyrir þær allar þær góðu minningar sem við eigum um góðan afa sem gaf sér alltaf tíma til að leika við okkur og spjalla.

Takk fyrir allt og allt.

Farðu í friði, elsku afi.

Faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður okkur nær,

aldrei við munum þér gleyma.

Þín barnabörn,

Kristján Helgi, Emelía Rut og Ásthildur Eva.

Elsku Siggi, bróðir minn og vinur.

„Enginn veit hvers hann er megnugur fyrr en hann hefur reynt.“

Þeir sem hafa leyst verkefni með góðum árangri, eru ánægðir með sig.

Það hefur ef til vill tekið þrek og tár í lengri eða skemmri tíma. Jafnvel hefur sú hugsun komið í upphafi að verkefnið væri með öllu óleysanlegt. Kjarkinn og þorið hafi vantað. Hafa svo látið slag standa, lagt á djúpið og róið eins hægt væri, þar til þeir hafa náð landi. Komist að því að þeir hafa getað. Af því að þeir reyndu. Stundum höfum við ekki val í þessu lífi um hvaða verkefni við fáum.

Siggi bróðir minn hafði alltaf reynt. Það var ekki í myndinni að gefast upp, sama hvað á gekk. Oft og mörgum sinnum fékk hann verkefni sem hann hafði ekki valið sjálfur. Með æðruleysi, skapfestu og ekki síst léttu skapi tókst hann á við hvert verkefnið á eftir öðru. Síðasta verkefnið hans var baráttan hans við krabbamein. Í því verkefni fékk hann tækifæri til að sýna sinn innri mann. Öll þau skipti í þessari baráttu sem ég kom til hans eða hringdi í hann gaf hann mér styrk. Hann sýndi mér alltaf þakklæti og gleði, já, og kátínu.

Þegar ég var unglingur, hann kominn yfir tvítugt, sá hann mig koma gangandi heim. Þá sagði hann við mig: „Vilborg! Hvers vegna ertu svona álút, horfðu til himins!“ Þannig hefur hann alltaf verið, litið á björtu hliðarnar í lífinu.

Fyrir stuttu fórum við maður minn og ég heim til hans og sýndum honum bílinn sem við vorum að kaupa. Þá var hann mjög veikur en spurði hvort hann fengi ekki „square“ s.s. rúnt. Hann lét sig hafa það að klifra upp í háan bílinn þrátt fyrir verkina. Hann hafði alltaf áhuga á því sem aðrir voru að gera. Svona var Siggi.

Ég og fjölskylda mín þökkum allar góðu minningarnar sem munu lifa með okkur um ókomna tíð.

Góður Guð mun hugga og styrkja okkur öll sem syrgjum elskulegan föður, bróður og vin, bjartan og sterkan, hann Sigga okkar.

Magnea systir.

Elsku Siggi frændi er dáinn.

Ekki bjóst ég við því að hann færi svona snöggt. Mér finnst svo stutt síðan hann sat inni í eldhúsinu hjá mömmu og pabba og við öll að ræða málin yfir kaffibolla. Það var aldrei lognmolla í kringum hann, það gustaði svoleiðis af honum, slíkur var dugnaðurinn.

Ég man fyrst eftir honum hjá Helgu ömmu niður á Austurgötu en þar var ég tíður gestur. Hann kom iðulega við hjá mömmu sinni á leið sinni af sjónum heim til sín og fékk sér kaffi, til að spjalla um daginn og veginn og taka í spil. Hvort hann kom ekki með eitthvað í soðið en það er önnur saga. Hann var með stór og litskrúðug húðflúr sem ég starði á stórum forundrunaraugum, barnið. En það var ekki það að ég óttaðist hann sem barn. Nei, hann var svo hlýr og góður og glettnin aldrei langt undan. En það einkenndi hann líka í þessum erfiðu veikindum, allt til hins síðasta dags. Hann ætlaði, gæti og skyldi! En hann laut í lægra haldi fyrir vágestinum.

Núna sé ég hann fyrir mér sitjandi við stórt borð að spila við Helgu ömmu og Gunna Kalla frænda og hláturinn ekki langt undan. Heimurinn er fátækari en hann var og bið ég allt hið góða í heiminum að gefa okkur öllum styrk á þessum erfiðu tímum.

Hinsta kveðja,

Birgitta María frænka.