Reynir Frímannsson var fæddur þann 17. janúar 1937 á Arnarstöðum í Saurbæjarhreppi. Hann andaðist á líknardeild Landspítalans sunnudaginn 11. júlí 2010.

Foreldrar Reynis voru Jónína Pálína Sigurjónsdóttir húsfreyja, f. 4. janúar 1901, d. 7. apríl 1956 og Frímann Karlsson bóndi, f. 7. mars 1902, d. 9. febr. 1979. Reynir var fjórði í röð sex systkina. Elst systkinanna var Karl, f. 17.3. 1924, d. 6.5. 2010, Matthías f. 22.11. 1926, Baldur f. 29.8 1930, Lilja f. 12.10. 1938 og Hrafnhildur f. 21.9. 1944.

Fyrstu æviárin var Reynir ásamt fjölskyldu sinni að Arnarstöðum í Saurbæjarhreppi en þegar hann var sex ára flutti fjölskyldan að Dvergstöðum í Eyjarfjarðarsveit. Reynir ólst upp í foreldrahúsum fram til tvítugs en flutti þá til Akureyrar.

Árið 1960 kvæntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Eygló Indriðadóttur f. 14.8. 1939. Þau eignuðust tvær dætur. Ásdís, gift Albert Einarssyni og eru synir þeirra Aron Kristbjörn og Dagur Ingi. Heiða Björk, sambýlismaður Snæbjörn Rafnsson og eiga þau tvö börn, Ísold Eygló og Kára Rafn.

Reynir lærði bifreiðasmíði og starfaði mestallan sinn starfsferil hjá Slippnum á Akureyri. Reynir og Eygló bjuggu lengst af á Akureyri eða þar til árið 2007 er þau fluttu til Hafnarfjarðar.

Útför Reynis fór fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði mánudaginn 19. júlí 2010 í kyrrþey að ósk hins látna.

Nú er komið að kveðjustund, elsku pabbi.

Nú þegar þú hefur kvatt okkur fara minningarnar að streyma um allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Traustur, heiðarlegur, yfirvegaður, duglegur, samviskusamur, vandvirkur, þúsundþjalasmiður, rólegur og góður hlustandi eru mannkostirnir sem koma upp í huga mínum þegar ég hugsa til þín. Þú varst hlédrægur og því oft ekki margorður en sýndir væntumþykju og hlýju með smáum og stórum verkum sem alltaf voru sjálfsögð af þinni hálfu.

Þegar ég horfi til baka er svo margs að minnast. Ferðirnar í Torfunes, lestur á kvöldin þegar ég var stelpa, veiðiferðir, snjóhúsagerð í bakgarðinum heima í Álfabyggðinni, allar góðu stundirnar sem þú áttir með barnabörnunum þar sem kærleikur þinn kom svo sterkt í ljós. Seinni ár voru það ferðalög og okkar sameiginlegu áhugamál sem voru gönguferðir og garðyrkja þar sem þú varst sannarlega með græna fingur.

Elsku pabbi minn, þú munt alltaf eiga ákveðinn stað í hjarta mínu. Guð geymi þig, við munum hittast síðar.

himna stjörnur á hvolfi

glitrandi skærar á himnum skinu

mín glöð upp til himna horfir

skærasta stjarna til mín brosir.

(Mirra 1982)

Þín dóttir,

Ásdís.

Elsku pabbi minn. Það er svo sárt að skrifa þessi orð, sárt vegna þess að þú ert ekki lengur hér hjá okkur. Ég sakna þín meira en orð fá lýst. Þú lifir í hjarta og minningum okkar um ókomna tíð. Nú er bara að reyna að komast upp á yfirborðið og draga andann þó sárt sé. Við munum halda vel hvert utan um annað á þessum erfiðu tímum og hlýja okkur við allar góðu minningarnar sem við eigum um þig.

Það var á fallegum og sólríkum sumardegi sem þú kvaddir þennan heim, fallegri dag var ekki hægt að óska sér fyrir þína hönd til að hefja þitt ferðalag, ferð sem bíður okkar allra einhvern tímann á lífsleiðinni. Ég er svo þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman, fyrir allar gönguferðirnar, ferðalögin okkar og öll góðu ráðin þín í gegnum tíðina. Margar minningar koma upp í huga minn, sérstaklega minningar sem tengjast ferðalögum fjölskyldunnar í æsku og síðar með okkur Snæa og barnabörnum þínum bæði innanlands sem utan.

Mig langar til að enda á minningarbroti um þig, pabbi minn, sem lýsir þér svo vel. Ég man svo vel eftir ferðalögunum okkar á æskuárum mínum, tilhlökkunina sem skapaðist hjá lítilli stelpuhnátu sem horfði á þig hvernig þú raðaðir ferðadótinu samviskusamlega inn í bílinn, allt á sínum stað, öryggið í fyrirrúmi, bíllinn yfirfarinn og svo var lagt af stað. Minningin þar sem ég lá í svefnpokanum mínum og hlustaði á malið í prímusnum og horfði á þig þar sem þú beiðst þolinmóður eftir því að ég og mamma færum yfir í draumalandið. Síðastur lagðist þú til hvílu, þá fullviss um að allt væri öruggt, vel hlýtt í tjaldinu og allir sofnaðir. Þú varst svo traustur og tryggur þínum nánustu, ást þín endurspeglaðist í gjörðum þínum og verkum. Ég veit að þér líður betur á nýjum stað, sjáumst síðar, elsku pabbi.

Hvíl í friði

Þín,

Heiða Björk.

Elsku afi.

Þú verður alltaf afi minn

þó að ég verði fullorðin.

Mér þykir svo vænt um þig

og ég veit að þú sérð mig.

Þú fylgist með mér úti og inni.

En þú veist að ég hef þig alltaf

í minningunni minni

Við hittumst aftur, ég lofa því,

þegar ég er komin í himnafrí.

Þín

Ísold Eygló.

Komið er að kveðjustund. Um hugann flögra margar minningar og langar okkur með fáum orðum að minnast á nokkrar þeirra.

Reynir var ákaflega traustur og ábyggilegur maður sem var okkur systrum mikil fyrirmynd. Hann var ósérhlífinn, vandvirkur og skilaði sínu á óaðfinnanlegan máta. Snyrtimennskan var í fyrirrúmi í einu og öllu. Húsið, garðurinn og bíllinn báru þess merki og voru ætíð í fullkomnu ástandi. Enda sat Reynir aldrei auðum höndum, bjó yfir mikilli eljusemi og natni og lagði einstaka alúð í öll sín verk. Þannig hafði hann mikil áhrif á umhverfi sitt og okkur. Hann tjáði sig oft í verki fremur en orðum, hafði sérlega góða nærveru og sinnti öllu mögulegu án þess að hafa um það mörg orð. Oft var þó stutt í húmorinn sem hann fór vel með. Reynir var hreinskiptinn, sjálfum sér samkvæmur og hugsaði hlutina til enda.

Það var alltaf jafn gott að koma í Álfabyggð til Diddu og Reynis. Þar var jafnan fyrsti áfangastaður lítillar stelpu á leið í sveitadvöl sumarlangt. Aldrei mun gleymast sú hlýja og umhyggja sem veitti litla ferðalangnum mikið öryggi í upphafi ferðar. Síðar meir fjölgaði í systrahópnum og áttum við allar okkar griðastað á Norðurlandi með uppábúnum rúmum og gómsætum mat hjá Diddu og Reyni. Var Reynir jafnan strax kominn í það að skutlast með systurnar og snúast í kringum okkur. Hann var óþreytandi að sýna okkur Norðurland. Reynir var áreiðanlegur, alltaf hægt að treysta á hann, og sýndi umhyggju sína í verki til dæmis þegar hann yfirfór bílana áður en haldið var af stað suður yfir heiðar. Ekki nóg með það, heldur sýndu þau hjónin vinum okkar einnig mikla gestrisni þegar þau opnuðu heimili sitt fyrir þeim oftar en einu sinni. Ekki gleymist heldur þegar hann tjaldaði aftur og aftur fyrir tvær litlar stelpur í garðinum sem stunduðu svo næturleiðangra yfir í garð nágrannans með tilheyrandi gulrótarstuldi þar sem þeim datt ekki í hug að hreyfa við neinu í garðinum hans Reynis. Slík var virðingin fyrir garðinum hans.

Segja má að Reynir hafi ræktað garðinn sinn í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Grasið var alltaf nýslegið, ekki sást arfakló og rósirnar sem þau tóku í fóstur frá móður okkar döfnuðu einstaklega vel. Við minnumst þess hversu gott var að tylla sér í gróðurhúsinu innan um blómstrandi og ilmandi rósirnar og njóta snyrtilegs umhverfisins. Hann unni náttúrunni, bjó yfir víðtækri þekkingu og gaman var að ræða við hann um garðrækt og skógrækt, hvort sem var heima í garði eða á rölti um Lystigarðinn. Reynir var athugull og varkár, anaði ekki út í neitt að óhugsuðu máli. Gott var að fá ráð hjá honum, til dæmis þegar kom að hálendisakstri, og miðlaði hann þannig vel virðingu sinni fyrir náttúruöflunum. Hann var mikill útivistarmaður sem ræktaði heilsuna með daglegri hreyfingu, hollu mataræði og ekki var neitt óhóf í einu eða neinu.

Nú er komið að kveðjustund. Minningin um fyrirmyndarmann sem ræktaði garðinn sinn og fólkið sitt af natni og alúð lifir.

Elsku Didda, Ásdís, Heiða og fjölskyldur, vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Guðrún, Steinunn, Aðalheiður og Kristbjörg Þórisdætur,

Þórir Guðmundsson.