Magnúsína Kristín Jónsdóttir frá Efri-Engidal, síðast til heimilis á Hlíf, Ísafirði, fæddist 20.10. 1928. Hún lést 16. júlí 2010 á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði.

Foreldrar hennar voru Jón Magdal Jónsson og Kristín Guðbjörg Magnúsdóttir, sem bæði eru látin.

Magnúsína var næstyngst sex systkina. Þau eru: Sigurgeir, látinn, Guðný, látin, Jón, Halldór og Magdalena. Hún bjó í Engidal nema síðustu tólf árin, er hún dvaldi á Þjónustudeildinni á Hlíf I á Ísafirði.

Útför Magnúsínu fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, fimmtudaginn 22. júlí 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku Maggý mín, nú er komið að kveðjustund. Fyrstu minningarnar eru þegar ég kom sem barn með föður mínum í Engidalinn þar sem heimili þitt var lengstan tíma ævi þinnar. Þar var tekið á móti öllum af mikilli gestrisni og hlýju.

Þegar þú svo fluttir á Hlíf varð vinskapur okkar enn nánari og samskiptin meiri. Áttum við margar skemmtilegar stundir saman.

Ég vil þakka þér, Maggý mín, fyrir alla þína góðu og fallegu vináttu og allt það sem þú hefur kennt mér og gefið.

Ég veit ekki hvort þú hefur

huga þinn við það fest

að fegursta gjöf sem þú gefur

er gjöfin sem varla sést.

Ástúð í andartaki,

augað sem glaðlegt hlær,

hlýja í handartaki,

hjarta sem örar slær.

Allt sem þú hugsar í hljóði

heiminum breytir til.

Gef þú úr sálarsjóði

sakleysi, fegurð og yl.

(Úlfur Ragnarsson)

Elskulegum ástvinum votta ég mína dýpstu samúð. Minningin lifi.

Þín,

Sólveig.