Læknafækkun Skráðum læknum hér á landi fækkaði um tæp 10% frá í janúar 2008 til sama mánaðar í ár en fyrir rúmum tveimur árum voru 1.169 læknar skráðir. Þeim hafði fækkað um 122 í byrjun þessa árs og voru þá 1.057.
Læknafækkun Skráðum læknum hér á landi fækkaði um tæp 10% frá í janúar 2008 til sama mánaðar í ár en fyrir rúmum tveimur árum voru 1.169 læknar skráðir. Þeim hafði fækkað um 122 í byrjun þessa árs og voru þá 1.057. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Skúli Á. Sigurðsson skulias@mbl.is Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra segir ekki standa til að grípa til sérstakra aðgerða vegna fækkunar skráðra lækna á landinu.

Fréttaskýring

Skúli Á. Sigurðsson

skulias@mbl.is

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra segir ekki standa til að grípa til sérstakra aðgerða vegna fækkunar skráðra lækna á landinu. Þeim hefur fækkað um 9,6% frá árinu 2010 og er það talið vera af völdum efnahagslægðarinnar; læknum bjóðist betri starfskjör erlendis og kjósi því síður að vinna hér á landi. Álfheiður segir ekki vera svigrúm nú til að hækka laun lækna í þeim tilgangi að laða þá til starfa hérlendis.

Formaður Læknafélags Íslands, Birna Jónsdóttir, hefur sagt að þróunin sé mikið áhyggjuefni. Geir Gunnlaugsson landlæknir telur að haldi þróunin áfram til lengri tíma geti hún skaðað heilbrigðiskerfið og mögulega stefnt öryggi sjúklinga í hættu. Kanna þurfi orsakir hennar og grípa inn í.

Fellst Álfheiður á að ef efnahagslægðin verði viðvarandi hér og læknum haldi áfram að fækka geti það haft mjög neikvæð áhrif á heilbrigðisþjónustu. Áframhaldandi fullnægjandi heilbrigðisþjónusta er samkvæmt því háð því að efnahagsbati verði hér á landi.

Álfheiður leggur mikla áherslu á að lægðin sé tímabundið ástand og hyggur að henni muni ljúka áður en fækkun lækna verði slík að það komi niður á heilbrigðiskerfinu.

„Ég bind vonir við það að þegar verður kominn stöðugleiki á vinnumarkaðinn hér og við getum farið að snúa vörn í sókn muni læknar erlendis koma heim,“ segir Álfheiður. Hún kveður stórfelldan læknaflótta ekki skollinn á og segir mikilvægt að ekki sé gert of mikið úr þróuninni. Að hennar sögn eru fleiri læknar hér á landi miðað við höfðatölu en í nágrannalöndunum. Þá standi heilbrigðisþjónusta og spítalar enn vel, öryggi sjúklinga sé tryggt og ekki sé fyrirsjáanlegt að það breytist.

Gæti skýrst með haustinu

Skýrt var frá því í sjónvarpsfréttum RÚV í fyrradag að erfiðlega gengi að manna vaktir og fá lækna til starfa á bráðamóttöku Landspítalans. Ekki er hægt að slá því föstu að þetta leiði af fækkun lækna hér á landi.

Niels Chr. Nielsen, aðstoðarforstjóri lækningasviðs spítalans, segir að á sumarleyfistímum sé alltaf strembið að manna vaktir á spítalanum. Ekki verði hægt að segja til um hvort erfiðleikarnir séu viðvarandi fyrr en í fyrsta lagi þegar sumarleyfum lýkur með haustinu.

VIÐHORFIÐ NEIKVÆTT

Læknar ekki hátekjufólk

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir að viðhorf ráðamanna til læknastéttarinnar sé mjög neikvætt. Mjög halli á stéttina í umræðunni.

„Það er hamrað á því alveg látlaust að læknar séu hátekjufólk á ofurlaunum og það þurfi að lækka þau,“ segir Birna. „En til að hafa þessi laun þurfa læknar að standa í framlínunni og vinna um jól og alla rauðu dagana.“ Tekjur þeirra kveður hún skýrast af löngum vinnutíma og álagi.

„Læknar sýna þjóðhollustu með því að vera hér,“ segir Birna og kveðst fullviss um að velflestir íslenskir læknar gætu sótt vinnu erlendis kysu þeir það og notið mun betri kjara.