Enginn gleymir æsilegum fréttum, sem bárust frá Rúmeníu á síðustu dögum aðventu ársins 1989. Allt var á suðupunkti.
Gamli einræðisherra kommúnistastjórnarinnar ætlaði að leysa málið rétt einu sinni með vel skipulögðum fjöldafundi og langri ræðu. Það rann upp fyrir honum í ræðustólnum að stund örlaganna væri runnin upp. Örvæntingin skein út úr andliti einræðisherrans á sjónvarpsskerminum.
Svo hófst flótti af þaki alþýðuhallarinnar í þyrlu. Flugmaðurinn fékk skilaboð í eyrað um að her og leynilögregla hefði snúið baki við leiðtoganum. Þyrlan lenti.
Leikbrúður foringjans í aldarfjórðung léku nú fyrir eigin afli. „Réttarhöld“ voru sett á svið með hraði. Þau voru tekin upp á filmu en ákærendur og dómarar ekki sýndir. Svo var dómur upp kveðinn, hjónin skotin á jóladag og svo husluð í hermannakirkjugarði.
Og nú hefur grafarró þeirra verið raskað að beiðni afkomenda, sem vilja vita hvort þau hjón liggi í gröfinni sem er merkt þeim. Fyrstu fréttir benda til þess að svo sé.
Einræðisherrann átti einlæga aðdáendur á Íslandi, sem lýstu göfugmenninu á hrífandi hátt. Þeir vilja hins vegar að um það ríki grafarþögn.
Verður þeirri grafarró líka raskað?