„Við verðum bara að spýta í lófana, eins og maður er farinn að segja eftir hvert ár, en svona er þetta bara,“ sagði Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, eftir tapið gegn BATE í gær. Þetta er annað árið í röð sem FH-ingar tapa illa gegn fyrsta andstæðingi sínum í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
„Við erum náttúrlega ekki atvinnumannalið og þar skilur á milli. Þessi lið eru betri á öllum vígstöðvum en með smáheppni getum við gert betur og maður bindur vonir við Blikana þetta árið,“ bætti Matthías við en hann viðurkenndi að leikurinn í gær hefði ekki verið mikið fyrir augað.
„Ég er kannski ekki aðdáandi varnarleiks en það er alltaf gaman að mæta öðrum þjóðum. Mér fannst við tapa þessu með sæmd í stað þess að tapa kannski stórt. Við ákváðum að vera ekkert að pressa á þá eins og við gerum oft á Íslandi því þetta lið er svo sterkt.“ sindris@mbl.is