Svanborg Guðmundsdóttir fæddist í Húnavatnssýslu 5. júlí 1915. Hún lést 6. apríl 2010. Svanborg var húsfreyja í Lækjarhvammi, Kirkjuhvammshreppi, V-Hún., síðast búsett í Hvammstangahreppi. Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðmundsson, fæddur í Melstaðarsókn, V-Hún., 8. mars 1873, látinn 1. maí 1960, og Hólmfríður Helga Jósefsdóttir, fædd í Staðarbakkasókn, V-Hún., 8. janúar 1876, látin 31. júlí 1945. Eignuðust þau þrjú börn: 1) Jósef, 2) Hólmfríði Maríu, 3) Svanborgu. Svanborg giftist Árna Eyjólfi A. Hraundal, f. í Melstaðarsókn 15. september 1916, látinn 28. október 1988, bóndi í Lækjarhvammi, Kirkjuhvammshr., síðast búsettur í Hvammstangahreppi, og eignuðust þau tvö börn: 1) Sigurlaugu Helgu, fædd 1937, maki Guðbjörn Breiðfjörð, eignuðust þau ellefu börn. 2) Ragnar, fæddur 1942, maki Helena Svanlaug Sigurðardóttir, eignuðust þau þrjú börn. Fyrir átti Árni soninn Vigni Baldvin.

Jarðaför Svanborgar fór fram þann 15. apríl 2010 frá Hvammstangakirkju og var jarðsett í Kirkjuhvamms garði.

Svanborg Guðmundsdóttir, eða amma eins og hún var ávallt kölluð á okkar heimili, hefði orðið 95 ára þann 5. júlí.

Amma var hefðarkona í háttum og framkomu og var hún alltaf glæsileg til fara. Amma var einstaklega hjartahlý og góð kona sem sá alltaf góðu hliðarnar á öllu. Þegar fjölskyldan fór á Tangann kom ekki annað til greina en að koma við hjá ömmu. Hún var höfðingi heim að sækja, eldhúsborðið svignaði undan kökum og kræsingum sem hún bakaði af sinni alkunnu snilld að ógleymdu góða kakóinu. Það var mikið spjallað og hlegið í heimsóknum hjá ömmu þar sem amma var bæði víðsýn og fróð og hrókur alls fagnaðar alls staðar sem hún kom. Amma var einstök handverkskona, eftir að hún flutti á sjúkrahúsið gerði hún mikið af því að mála á dúka og fleira.

Við þökkum ömmu fyrir skemmtilegar og góðar stundir í gegnum árin, einnig kærleiksríka samfylgd sem við munum geyma í hjörtum okkar um ókomin ár. Við munum ávallt minnast hennar með ást, kærleika og gleði í hjarta og munum við hafa lífssýn hennar að okkar leiðarljósi.

Með þessum orðum kveðjum við alveg einstaka heiðurskonu.

Eygló og fjölskylda.

Elsku langamma mín.

Ég man eftir því þegar ég kom alltaf í heimsókn í Fífusundið og þú tókst hress á móti okkur og fórst að baka pönnsur og búa til heitt kakó. Ég kom aldrei í heimsókn þangað án þess að fá hlaðborð af yndislegum veitingum og ég man að eftir að þú fluttir niður á sjúkrahús varstu ávallt miður þín að geta ekki boðið upp á neitt að borða eða drekka því það var vaninn hjá þér en auðvitað var okkur alveg sama, við vildum bara hitta þig og spjalla við þig.

Þú varst jákvæðasta manneskja sem ég veit um og ég hitti þig aldrei nema með bros á vör og ég mun ávallt muna það. Einnig vildirðu alltaf vera fín, það kom ekkert annað til greina og þú vildir alls ekki sjá fólk í einhverjum lufsum, það skyldi bara klæða sig í almennilega föt.

Ég fékk að vita það um daginn að þér fannst yndislegt að klæðast hvítu, helst slopp, því það var stór draumur þinn að verða hjúkrunarkona og ég er viss um að ef sá draumur hefði ræst hefðir þú orðið afbragshjúkrunarkona því þú hafðir svo hlýjan persónuleika. Þegar við komum norður var alltaf gerð ferð til að hitta þig og heyra sögur frá þér og létta lundina því við fórum alltaf brosandi út frá þér og með jákvæðnina uppmálaða tilbúin til að takast við lífið á sem bestan hátt.

Það er svo margt sem ég mun sakna, ég mun sakna þess að geta talað við þig, svona jákvæða sama hvað var, mun sakna þess að heyra allar sögurnar úr sveitinni, að fá að faðma þig og endalaust meira.

Þú varst gift Árna afa í 52 ár og talaðir mikið um það hvað þið væruð hamingjusöm og rifust aldrei. Þú ert ein mín stærsta fyrirmynd því þú leist á björtu hliðarnar á öllu, alveg sama hvað það var. Ég mun líka alltaf muna að þú sagðist aldrei vita hvað fýla væri, hvort það væri lykt eða bara hvað það væri, þú þekktir ekkert annað en að vera hress og ánægð með lífið.

Elsku amma mín, núna þegar þú ert farin úr okkar heimi trúi ég því að Árni afi sé kominn þér við hlið og þið séuð saman á ný. Þín verður sárt saknað og minning þín lifir í hjörtum okkar allra að eilífu.

Hvíldu í friði, elsku langamma mín, ein skærasta stjarna lífs míns.

Dagmey Ellen.