Höfundar vísindaskáldsagna fyrr á tímum sáu ósjaldan fyrir sér notkun leysigeisla í hernaði. Nú er sú framtíðarsýn orðin að veruleika því vopnaframleiðandinn Raytheon hefur þróað og gert tilraunir með nýja leysigeislabyssu sem skotið getur niður...

Höfundar vísindaskáldsagna fyrr á tímum sáu ósjaldan fyrir sér notkun leysigeisla í hernaði.

Nú er sú framtíðarsýn orðin að veruleika því vopnaframleiðandinn Raytheon hefur þróað og gert tilraunir með nýja leysigeislabyssu sem skotið getur niður loftför.

Tilraunin fór fram með leynd undan ströndum Kaliforníu og fór þannig fram að byssan, sem er samsett úr sex leysisendum, sendi ósýnilegar ljósbylgjur í átt að ómönnuðum loftförum og grandaði þeim.

Voru á hátt í 500 km hraða

Meðalhraði loftfaranna, lítilla flugvéla sem Bandaríkjaher notar við njósnir og eftirlit, var um 300 mílur, eða um 480 km á klst, og var fjarlægðin á fjórða kílómetra.

Leysibyssan er tengd Phalanx CIWS-eldflaugabúnaði sem leitar eftir skotmörkum og stillir svo hnitið fyrir eldflaugina, sem í þetta sinn var áðurnefndur leysir.

Bandaríski sjóherinn er mjög áhugasamur um þróunina og er stefnt að því að innan sex ára verði leysigeislavopnið komið í almenna notkun hjá hernum.

Leysirinn var sem áður segir samsettur og koma einingarnar sex úr bílaiðnaðinum. baldura@mbl.is