Það mætti halda að einungis stelpur væru í hinni sænsku indípopp-hljómsveit Love Is All, en tónlistin á nýrri plötu þeirra Two Thousand and Ten Injuries er þannig gerð.
Það er ef til vill rödd söngkonu hljómsveitarinnar, Josephine Olausson, sem gerir þetta að verkum en hún er, ótrúlegt en satt, eina stelpan í sveitinni. Olausson hefur sérstaka og flotta rödd og hljómar líkt og unglingsstelpa með stæla.
Það eru engin rólegheit á plötunni, síður en svo, og erfitt er að hlusta á hana í kyrrsetu. Hún veitir manni orku og það er næstum ógerningur að dilla ekki fætinum við taktföst lögin.
Þau lög sem gripu mig strax voru „Repetition“, „False Pretense“ og „Take Your Time“. Þá er takturinn í laginu „The Birds Were Singing With All Their Might“ flottur (og nafnið ekki síðra), og kórinn í „A Side In A Bed“ ákaflega skemmtileg tilbreyting. Heilt á litið er platan algjör snilld og eiga þessir sænsku tónlistarmenn skilið lof í lófa.
Hugrún Halldórsdóttir