Margrét Júlíusdóttir fæddist í Hafnarfirði 17. apríl 1935. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness 29. júní 2010.

Útför Margrétar fór fram frá Reykholtskirkju 6. júlí 2010.

Elsku mamma mín. Skrítið að þurfa að tala til þín í þátíð, en nú er baráttunni lokið og því miður hafðir þú ekki vinninginn að þessu sinni, eins og svo oft áður.

Það var alveg óendanlega sárt að þurfa að kveðja þig, en jafnframt dýrmæt reynsla fyrir okkur systurnar að hafa fengið að ganga í gegnum þessa síðustu daga okkar saman og er ég þakklát fyrir að hafa fengið að vera hjá þér nótt sem dag, allt þangað til þú fórst.

Starfsfólkið á sjúkrahúsinu á Akranesi á lof skilið fyrir frábæra umönnun og þessir síðustu dagar á spítalanum í þessu yndislega herbergi, þar sem allt var reynt að gera til að okkur liði sem best, voru ógleymanlegir og fyrir það vil ég þakka.

Af mörgu er að taka og minningarnar hrannast upp í kollinum.

Þú varst nú aldrei fyrir neitt vesen og vildir leysa öll mál strax og lítið fyrir að geyma eitthvað til morguns sem hægt var að gera í dag. Dugnaðurinn var alveg ótrúlegur og þú varst alltaf að, líka eftir að þú varst orðin svo veik og máttfarin þá hélstu samt áfram, lést ekkert stoppa þig. Síðasta morguninn okkar saman varstu hörð á því að setjast upp í rúminu og vildir fá lyfin þín og gera sjálf, ég mátti alls ekki halda á glasinu fyrir þig á meðan þú fékkst þér pínulítinn vatnssopa.

Ég man að læknarnir klóruðu sér oft í hausnum yfir henni mömmu, sögðu við sjálfa sig: „Hvaðan kemur þessi kona eiginlega?“ Þeir skildu ekki hvaðan hún fengi allan þennan lífskraft og vilja til að komast í gegnum öll þessi veikindi sín.

Það var líka aðdáunarvert hvað þú varst einstaklega góð við ömmubörnin, alltaf að hugsa um að vera sniðug og fá þau til að brosa, kaupa handa þeim dót, eitthvað til að gleðja. Til dæmis eftir að þú varst komin á spítalann og ljóst var að þú kæmist ekki heim þá baðstu okkur að kaupa ís handa þeim og færa þeim alla leið upp í sveit, frá ömmu á spítalanum, og daginn áður en þú fórst sendir þú eina okkar út í búð að kaupa handa þeim íþróttadót.

Eitt var það líka sem var þér mikð hjartans mál þessa síðustu daga okkar saman, en það var að við myndum borða öll saman „jólahryggina“ sem þú hafðir keypt til að elda handa Möggu og Hrefnu þegar þær kæmu til landsins. Þetta var alveg stórmál hjá þér og þú varst stundum að skamma okkur fyrir að vera að hanga þetta yfir þér, ættum frekar að fara heim og halda veisluna.

Ég get sagt þér það núna mamma mín að við hittumst allar systurnar ásamt fjölskyldum, heima á Bjarnastöðum, kvöldið eftir að þú varst farin og héldum þessa veislu þér til heiðurs, takk fyrir okkur.

Það er ótalmargt sem hægt er að draga fram og minningarnar margar, en þær kem ég til með að geyma vel innra með mér og gott að geta hlýjað sér við góðar minningar um yndislega mömmu sem setti ætíð hagsmuni annarra í fyrirrúm og vildi allt fyrir alla gera.

Guð geymi þig.

Þín

Hrafnhildur.

Elsku amma mín, ég hef oft sest niður við þetta auða blað og reynt að sjá hvar ég ætti mögulega að byrja. Hjartað mitt hamast ótt og hugurinn þeytist í allar áttir, það er eins og verið sé að spila á fiðlu inni í mér og tekið sé fast í strengina. Því alveg frá því ég fæddist koma mínar sterkustu minningar upp í hugann. Frá því ég man eftir mér í sveitinni hjá þér amma mín, þar sem lífið byrjaði einhvern veginn allt saman, og allt sem ég byggi á í dag kemur þaðan. Ég er svo þakklát að hafa fengið að eiga með þér tíma núna þessar seinustu vikur, þar sem þú barðist hetjulega við veikindi þín. Þú varst svo glöð amma mín þegar ég kom að heimsækja þig upp á spítala. Ég mun aldrei gleyma um hvað við töluðum og mun ég geyma það í hjarta mínu. Ég veit að hönd hins æðra var yfir okkur þennan dag.

Ég mun ávallt sakna þín elsku amma mín.

Minning þín er ljós í lífi mínu.

Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig.

Ég set hérna eina af uppáhaldsbænunum okkar:

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

(Reinhold Niebuhr)

Þín

Berglind Fríða.

Mig langar að minnast Margrétar mágkonu minnar sem kvödd var frá Reykholtskirkju 6. júlí sl. en hún lést á sjúkrahúsi Akraness hinn 29. júní eftir margra ára baráttu við illvíga sjúkdóma, ekki einn heldur marga, sem sigruðu að lokum. Það eru liðin um 50 ár síðan Magga flutti í sveitina sem kaupakona og gerðist síðan húsmóðir þar. Því sinnti hún sem og öðru sem að höndum bar með miklum dugnaði og myndarbrag meðan kraftar leyfðu. Alltaf var gott að leita til Möggu og tók hún vel á móti fólki og gott var að sækja hana heim og á Bjarnastöðum var ávallt gestkvæmt, sérstaklega yfir sumartímann. Hún var einstaklega greiðvikin, hjálpsöm og ráðagóð og ekkert mál að kippa hlutunum í lag. Þessu kynntumst við þegar við dvöldum í sumarhúsinu okkar í nágrenninu. Oft tók hún að sér að hafa menn í fæði sem sendir voru til ýmissa verka í sveitinni og þótti þeim það góður kostur og gott að vera. Þegar við komum í sveitina síðast, skömmu áður en Magga fór á spítalann, var hún að spá í blóm sem hún hafði hug á og langaði að gróðursetja í garðinum. Þar var engan uppgjafartón að heyra þótt heilsan væri ekki upp á marga fiska. Við viljum að lokum þakka fyrir allar góðu móttökurnar og ótalmargt fleira. Þótt við teljum okkur vita hvar við endum öll þá bregður manni mikið og ávallt er erfitt að kveðja. Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar og annarra vandamanna.

Ingibjörg Jónsdóttir.