Meistari Ólafur Björn Loftsson.
Meistari Ólafur Björn Loftsson.
Titilvörnin á Íslandsmótinu í höggleik leggst vel í Ólaf Björn Loftsson úr Nesklúbbnum en mótið hefst í dag á Kiðjabergsvelli. „Það er auðvitað aðeins meiri pressa á manni en ég fer nákvæmlega inn í þetta mót eins og öll önnur.

Titilvörnin á Íslandsmótinu í höggleik leggst vel í Ólaf Björn Loftsson úr Nesklúbbnum en mótið hefst í dag á Kiðjabergsvelli. „Það er auðvitað aðeins meiri pressa á manni en ég fer nákvæmlega inn í þetta mót eins og öll önnur. Ég er ekkert að velta mér upp úr þessu. Ég mæti bara á 1. teig á morgun, slæ eitt högg í einu og sé svo hvað gerist,“ sagði Ólafur spurður um hvort það væri á einhvern hátt frábrugðið að mæta til leiks sem ríkjandi meistari. Þegar Morgunblaðið náði tali af Ólafi var hann á leið í sumarbústað í grennd við völlinn þar sem hann mun halda til meðan á mótinu stendur. Hann er búinn að spila völlinn nokkrum sinnum í sumar. „Ætli ég hafi ekki spilað völlinn svona fjórum sinnum. Mér líst bara vel á aðstæður og hlakka mikið til,“ sagði Ólafur.

Parið gæti orðið gott skor

Íslandsmeistarinn er ekki ýkja högglangur miðað við það sem gengur og gerist í þessum gæðaflokki. Hann er hins vegar með þeim allra snjöllustu í vippum og púttum. Hann segir sína styrkleika nýtast vel í Kiðjaberginu. „Það liggur í augum uppi að þessi völlur krefst nákvæmni. Það er ekki högglengdin sem skiptir máli og það kemur sér ágætlega fyrir mig. Það er mikilvægt að halda boltanum í leik og koma sér á góða staði. Eins og spáin lítur út þá má gera ráð fyrir smá vindi. Það verður því mjög mikilvægt að halda boltanum í leik og treysta á stutta spilið og mér líst bara vel á það. Þetta gæti orðið þannig mót að parið verði gott skor, sérstaklega ef veðrið verður aðeins að stríða okkur. Þolinmæðin verður mikilvæg, ásamt því að sýna aga og halda ró sinni,“ sagði Ólafur við Morgunblaðið í gær. kris@mbl.is