Kristján Jónsson
Hjalti Geir Erlendsson
Tveir eru mikið slasaðir og með innvortis áverka og brot og nokkrir að auki á sjúkrahúsi eftir að rúta með 17 manns innanborðs fór á hliðina við Einarsstaði í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu í gær. Ökumaðurinn virðist hafa misst stjórn á rútunni þannig að hún fór út af á gatnamótunum, rann inn á túnið við Einarsstaði og valt.
„Alls komu sjö manns inn á bráðamóttökuna hjá okkur og þar af voru tveir sem ákveðið var að senda suður með flugi,“ sagði Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, í gærkvöld. Hann sagði fólkið vera á ýmsum aldri. Gert var ráð fyrir að þrír eða fjórir yrðu áfram til eftirlits í nótt á sjúkrahúsinu. Margir að auki hlutu skrámur og marbletti.
Í rútunni, sem er af Mercedes Benz gerð, voru 15 ferðamenn, flestir franskir auk tveggja Íslendinga, bílstjóra og leiðsögumanns. Íslendingarnir slösuðust lítið.
Alls voru fimm sjúkrabílar kallaðir á slysstaðinn auk lögreglu og björgunarsveita frá Húsavík, úr Aðaldal, Mývatnssveit, Reykjadal og frá Akureyri.
GATNAMÓTIN