„Mér líst ljómandi vel á Kiðjabergsvöllinn.
„Mér líst ljómandi vel á Kiðjabergsvöllinn. Þetta á eftir að verða athyglisvert mót og að venju mun veðrið leika stórt hlutverk í því hvernig okkur mun ganga að glíma við völlinn,“ sagði Sigmundur Einar Másson úr GKG en hann fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í fyrsta sinn á ferlinum á Urriðavelli árið 2006. Sigmundur er nokkuð bjartsýnn fyrir mótið. „Kiðjabergsvöllur er ekkert mjög ólíkur Urriðavelli þegar ég skoða vegalengdirnar og hvar best er að staðsetja sig í upphafshöggunum. Ég er allavega með svipaða tilfinningu fyrir þessum velli. Ég er búinn að skoða aðstæður hér reglulega frá því í apríl. Sveiflan hjá mér er betri í dag en fyrir nokkrum vikum og ég hlakka til að takast á við þetta verkefni,“ sagði Sigmundur Einar í gær.